Verð­lags­eftir­lit: Vörukarfan lækkar í 4 verslunum af 8 en hækkar í tveimur

Vörukarfa ASÍ hækkaði í fjórum af átta mat­vöru­verslunum og lækkaði í fjórum verslunum á fjögurra mánaða tíma­bili, frá byrjun maí til byrjun septem­ber. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá ASÍ.

„Mest hækkaði vörukarfan hjá Hag­kaup, 4,6% og næst mest hjá Heim­kaup, 4,3%. Mest lækkaði vörukarfan í Kram­búðinni, 3,9% og um 2,6% hjá Kram­búðinni. Vörukarfa ASÍ endur­speglar al­menn matar­inn­kaup meðal­heimilis. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upp­lýsingar um verð­breytingar milli verð­mælinga. Ekki er því um beinan verð­saman­burð að ræða þ.e.a.s. hvar ó­dýrustu vöru­körfuna var að finna,“ segir í frétta­til­kynningu ASÍ

Vörukarfan lækkar í öllum verslunum Sam­kaupa

Mest lækkaði verð í Kram­búðinni, um 3,9%, 2,6% í Kjör­búðinni, 2,2% í Nettó og 1,5% í Iceland. Verslanirnar eru allar hluti af verslana­keðju Sam­kaupa. Verð á mjólkur­vöru, ostum og eggjum lækkaði í öllum fjórum verslununum sem og verð á á­vöxtum og græn­meti. Verð á drykkjar­vöru í þremur verslunum verslunar­keðjunnar en stóð í stað í Nettó. Verð á hrein­lætis­vöru lækkaði einnig í öllum þessum verslunum nema Iceland.

Mestar verð­hækkanir í flokki brauð- og korn­vara, kjöt­vara og hrein­lætis- og snyrti­vara

Verð á á­vöxtum, og græn­meti lækkaði mest í könnuninni en verð á mjólkur­vöru, ostum og eggjum lækkaði einnig nokkuð í sumum verslunum. Verð á kjöt­vöru hækkaði í helmingi verslana en lækkaði í helmingi verslana. Hafa ber í huga að á­vextir, græn­meti og kjöt­vara eru mat­vöru­flokkar þar sem verð sveiflast mest milli kannana.

Verð á á­vöxtum lækkaði í öllum verslunum nema Heim­kaup. Mest lækkaði verð á á­vöxtum í Kram­búðinni, 15,5% á meðan vöru­flokkurinn hækkaði um rúm 23% í Iceland. Verð á græn­meti lækkaði í 5 af 8 verslunum, mest í Kjör­búðinni, 16,8%. Verð á kjöt­vöru lækkaði í 4 verslunum af 8, mest um 8% í Nettó en mest hækkun varð á kjöt­vöru í Hag­kaup, 9,5%. Verð á brauð- og korn­vöru hækkaði í meiri­hluta verslana sem og verð á hrein­lætis- og snyrti­vöru. Þá hækkaði verð á „ýmissi mat­vöru“ sem má rekja til tölu­verðra verð­hækkana á fisk­meti en flokkurinn saman­stendur af fiski, olíu og feit­meti og loks annarri mat­vöru, svo sem sósum, kryddi og dósa­mat.

Um könnunina

Verðkannanir á vöru­körfunni voru gerðar 11. -18. maí 2022 og 8. - 15. septem­ber 2022. Verð­lags­eftir­lit ASÍ mælir breytingar á verði vöru­körfu sem getur endur­speglað al­menn inn­kaup meðal­heimilis. Vörukarfa ASÍ inni­heldur allar al­mennar matar- og drykkjar­vörur, t.d. brauð­meti, morgun­korn, pasta, kjöt, fisk, græn­meti, á­vexti, pakka­vörur, kaffi, gos, og safa. Við sam­setningu vöru­körfunnar voru hafðar til hlið­sjónar vogir Hag­stofunnar sem notaðar eru til út­reiknings á vísi­tölu neyslu­verðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti til­teknir vöru­flokkar eru af neyslu­körfu meðal heimilis.

Verð­breytingar voru skoðaðar í eftir­farandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hag­kaup, Kjör­búðinni, Iceland, Heim­kaup og Kram­búðinni. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upp­lýsingar um verð­breytingar milli verð­mælinga. Ekki er því um beinan verð­saman­burð að ræða þ.e.a.s. hvar ó­dýrustu vöru­körfuna var að finna. Einnig er rétt að at­huga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta til­boð á ein­staka vöru­liðum því haft á­hrif á niður­stöðurnar.