Verðbréfaguttar í pólitík?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er haft eftir verðbréfasölum að fjárfestar óttist vinstri stjórn; að ótti við vinstri stjórn sé orsök lækkana sem orðið hafa í Kauphöllinni undanfarna daga. „Óvissan snýr að stjórnarmynstri eftir kosningar og hvað mismunandi stjórnarmyndanir muni hafa í för með sér,“ fullyrðir Valdimar Ármann, forstöðumaður hjá Arctica Finance.
Haft er eftir Valdimar að „aukin útgjöld ríkissjóðs í ýmiss konar tilfærslur og greiðsluþátttöku [gætu] skilað sér að öðru jöfnu í aukinni verðbólgu og þar af leiðandi hærri stýrivöxtum og mögulega aukinni útgáfu ríkissjóðs sem gæti hækkað verðbólguvæntingar sem og langtímakröfuna á skuldabréfamarkaði.“
Algerlega virðist hafa farið fram hjá Valdimar Ármann að núverandi vinstri stjórn hefur þegar ráðist í tilfærslur og greiðsluþátttöku af stærðargráðu sem á ekki sinn líka í Íslandssögunni. Enginn vafi leikur á því að næstu ríkisstjórnar bíður tröllvaxið verkefni við að vinda ofan af skuldahalanum sem orðið hefur til vegna Covid.
Verðbréfasalinn virðist telja skoðanakannanir hér á landi ráða mestu um gengi hlutabréfa í Kauphöllinni en skautar með öllu fram hjá því að erlendir markaðir hafa lækkað að undanförnu – er það ótti við stjórnarmynstur á Íslandi eftir kosningar sem stýrir erlendum kauphöllum? Covid hefur raskað aðfangakeðjunni víða um lönd. Í Bretlandi, einu helsta viðskiptalandi okkar, eru vandræðin enn meiri en annars staðar vegna þess að Brexit hefur haft í för með sér víðtækan vöruskort í Bretlandi vegna skorts á vinnuafli og niðurbrots flutningakeðjunnar sem er bein afleiðing Brexit.
Því er fráleitt að vísa í ótta markaðarins við vinstri stjórn sem skýringu fyrir lækkun hlutabréfa hér á landi. Hér situr vinstri stjórn. Síðastliðið ár hafa hlutabréf hækkað umtalsvert. Við slíkar aðstæður er algengt að hlutabréfaverð hnikist til. Síkt er eðlilegt á markaði. Orsakir slíkra breytinga eru gjarnan verðbólguhorfur hér heima og erlendis – verðbólgan hefur nú um margra mánaða skeið verið yfir viðmiðum Seðlabankans, vaxtahækkunarferli er löngu hafið. Þá er aðfangakeðja erlendis víða löskuð, vegna Covid faraldursins og ofan á bætast sjálfskaparvíti einstakra þjóðríkja á borð við Bretland.
Alþekkt er að orð og yfirlýsingar aðila á markaði, eins og til dæmis þekktra verðbréfasala, geta haft mikil áhrif á gengi verðbréfa, alla vega til skemmri tíma. Þess vegna gilda strangar reglur um það hvernig aðilar á markaði mega tjá sig – það getur flokkast undir markaðsmisnotkun að tjá sig um einstök fyrirtæki eða markaðinn í heild með villandi hætti gegn betri vitund. Er hugsanlegt að verðbréfaguttar séu að búa til söluþrýsting til að reyna að hafa áhrif á úrslit kosninganna eftir níu daga?
- Ólafur Arnarson