Verðbólgustjórnin ber ábyrgð á vandanum

Verðbólga á Íslandi heldur áfram að hækka, þvert á allar spár og áætlanir sem birtar voru undir lok síðasta árs. Þá átti verðbólga að fara lækkandi frá og með byrjun þessa árs. Nú er verðbólgan komin að nýju í 10 prósent og ljóst er að núverandi ríkisstjórn Íslands ber fulla ábyrgð á þeirri neikvæðu þróun.

Við afgreiðslu fjárlaga lét fjármálaráðherra hækka öll gjöld sem renna til ríkisins um 7,8 prósent í stað þess að stjórnvöld legðu sitt af mörkum til að snúa þessari öfugþróun við. Nóttina fyrir þinglok í desember var svonefndur bandormur keyrður í gegnum þingið til hækkunar á gjöldum sem renna til ríkisins. Um er að ræða 12 milljarða króna á ári.

Þessar hækkanir tóku allar gildi nú um áramótin og koma þegar fram í verðbólgumælingum. Í kjölfarið keppast hagdeildir bankanna við að spá enn einni vaxtahækkun Seðlabankans, sennilega um 50 punkta, og þannig heldur ruglið áfram í formi víxlhækkanna. Vert er að hafa í huga að bankarnir hagnast ávallt á vaxtahækkunum. Þeir hækka útlánsvexti iðulega strax en innlánsvexti mun minna og seinna.

Hafa þessir stjórnmálamenn okkar ekkert lært? Kunna þeir ekkert til verka? Hafa þeir ekki lesið um þróun verðbólguvandans á Íslandi á síðustu öld? Þá skapaðist verðbólguvandinn ávallt með svipuðum hætti og nú er að gerast undir forystu ríkisstjórnarinnar.

Ríkisfjármálin á Íslandi eru í fullkomnu lamasessi. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi ár var afgreitt frá Alþingi með 130 milljarða halla fyrir jól, í lok árs þegar hagvöxtur mældist mikill. Ekki eru gefin nein fyrirheit um að fjárlagahalli ríkissjóðs muni nokkuð lagast á yfirstandandi kjörtímabili.

Eitt af því sem er mjög skaðlegt fjárhag ríkissjóðs er einmitt verðbólga og hækkandi vextir. Þess vegna hefði verið mjög mikilvægt og þarft að ríkisstjórnin hefði gengið á undan með góðu fordæmi við afgreiðslu fjárlaga og haldið óbreyttum gjöldum, sleppt 12 milljarða hækkuninni og með því sýnt gott fordæmi og sent þau skilaboð út í þjóðfélagið að allir ættu að reyna að halda aftur af hækkunum.

Þetta gat ríkið hæglega gert því að ekki breytir öllu hvort halli ríkissjóðs verður 130 eða 140 milljarðar í ár. Auk þess má ætla að minni verðbólga og lægri vextir kæmu ríkissjóði til góða. Þetta virðist fjármálaráðherra ekki bera skynbragð á.

Aukin verðbólga í janúar – í stað þess að úr henni drægi eins og áætlað hafði verið – er því að fullu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og kemur eins og blaut tuska í andlit almennings. Þessi staða mun sannarlega ekki hjálpa til við að greiða úr þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp á vinnumarkaði. Byltingaröflin í Eflingu munu örugglega notfæra sér þessa stöðu til að æsa til enn frekari skemmdarverka í samfélaginu. Ekki virðist skorta vilja til þess þar á bæ.

Ekki hjálpaði að sjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur, sem vill verða ráðherra síðar á árinu, koma fram í sjónvarpsfréttum í gær og ávíta almenning í landinu fyrir eyðslusemi. Hún talaði um „eyðsluklær“ og réttlætti hækkanir ríkisins á öllu um áramótin með því að ríkissjóður ætti svo bágt en „eyðsluklærnar“ færu hamförum. Vilji hún finna skaðlegar eyðsluklær eru vænlegri veiðilendur innan þingflokksherbergis sjálfstæðismanna en meðal almennings í landinu.

Almennir launþegar í þessu landi, sem rétt draga fram lífið frá mánuði til mánuðar, líta ekki á sig sem „eyðsluklær“ og eru það ekki. Guðrún fær engar þakkir fyrir þetta innlegg í umræðuna og full ástæða er til að spyrja hvort þingmaður með dómgreind af þessu tagi hafi mikið fram að færa við ríkisstjórnarborðið.

- Ólafur Arnarson