Veltir fyrir sér hvort forystumenn Vinstri grænna séu klikkaðir eða brjálaðir

„Gerir það sér enga grein fyrir því, hvílík hörmungarganga þetta ríkisstjórnarsamstarf hefur verið fyrir Vinstri græna og hvílík sneypuför þetta í raun er?“

Þessari spurningu varpar Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina, fyrir sér í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar vísar hann í orð Alberts Einsteins sem sagði eitt sinn að sá sem endurtekur, eða gerir það sama, aftur og aftur og reiknar með annarri eða breytilegri niðurstöðu sé klikkaður eða brjálaður.

„Þetta dettur mér í hug nú, þegar ég heyri Katrínu Jakobsdóttur og aðra Vinstri græna tala fjálglega um það að fara aftur í sömu ríkisstjórn, sama ríkisstjórnarsamstarfið, eftir kosningar, ef úrslit leyfa,“ segir hann og veltir fyrir sér hvort forystufólk Vinstri grænna hafi ekkert skilið og ekkert lært síðustu fjögur árin – ríkisstjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn hafi verið hvílík sneypuför.

„Eða, heldur það kannske, að það geti bara klórað yfir stórfellt árangursleysið, hvað varðar stefnu- og baráttumál Vinstri grænna, og látið eins og uppgjöf og ósigur, nánast yfir alla málefnalínuna, sé í raun sigurganga og flottur árangur?“

Ole Anton telur svo upp ýmis atriði úr stefnu Vinstri grænna og rifjar til dæmis upp ályktun landsfluttar flokksins árið 2015 þar sem samþykkt var að leggjast eindregið gegn hvalveiðum. Segir hann að út á meðal annars þetta meinta baráttumál hafi náttúru- og dýraverndunarsinnar stutt flokkinn í kosningunum 2017, en líklega hafi flokkurinn verið rekinn öfugur til baka með þetta í samningunum um stjórnarsamstarf.

Ole Anton nefnir svo þjóðgarðsmálið, að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu.

„Þetta hefðu Vinstri grænir kannske átt að fá fyrir að gefa eftir hvalafriðun. En fengu þau það? NEI. Hér virðast D og B hafa hlaupist undan merkjum, beitt undanbrögðum, þegar á reyndi.“

Hann nefnir einnig að í stjórnarsáttmála hafi verið ákvæði um að endurskoða þurfi löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. „Kannske var þetta líka hluti af hrossakaupum. En stóðst þetta atriði þá? NEI, aldeilis ekki. Komst aldrei úr nefnd.“

Hann tínir fleiri atriði til; stjórnarskrármálið og loftslagsvernd til dæmis, en blásið var til blaðamannafundar haustið 2018 þar sem tilkynnt var að 6,8 milljarðar skyldu settir í aðgerðir í loftslagsmálum, 1,3 milljarða á ári.

„Auðvitað var þetta gott mál, allt er betra en ekkert, en það vildi svo til, að sömu daga og ríkisstjórnin blés í sína lúðra með þetta mál, voru fréttir í gangi með það, að setja ætti 120 milljarða í flugstöð í Keflavík á næstu árum. Auðvitað var það þetta fínt átak með flugstöðina, gott innlegg í ferðaþjónustuna, en lítið varð úr „stórfelldu átaki“ ríkisstjórnar í loftslagsmálum, þegar þessi átök og fjárfestingar eru borin saman. 18-falt meira skyldi fara í flugstöð, en í að tryggja landsmönnum minni mengun, hreinna loft og betri lífsskilyrði.“

Ole Anton segir það með ólíkindum að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, skyldi láta sér detta í hug að hún fengi einhverjum stefnumálum Vinstri grænna framgengt í samstarfi við Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga.

„Og það, að hún sé nú tilbúin til að endurtaka þetta samstarf, með væntingar um betri árangur, er, samkvæmt Einstein, hrein klikkun eða brjálæði.“

Ole Anton Bieltvedt.