Veit hún ekki að Sjálfstæðisflokkurinn situr nú í vinstri -stjórn?

Ekki ber á öðru en að það hafi farið fram hjá nýjum frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Norðaustur kjördæmi, sem mun taka við þingsæti af Kristjáni Þór Júlíussyni fyrrum stjórnarformanni Samherja, að flokkur hennar situr nú í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur sem er formaður í sósíalistaflokki. Berglind Ósk Guðmundsdóttir virðist hafa miklar áhyggjur af því að hér verði mynduð vinstri stjórn eftir kosningar á ábyrgð annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í blaðagrein hennar sem birtist í Morgunblaðinu fyrir helgina. Berglind verður að horfast í augu við að flokkur hennr situr nú í ríkisstjórn Katrínar og í skjóli hennar en hún er formaður Vinstri grænna sem áður nefndust Alþýðubandalagið og hafa gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina. Alltaf sami flokkurinn, sama fólkið, sömu markmiðin – en mismunandi nöfn. Með þessu fólki vinnur Sjálfstæðisflokkurinn nú og lætur sér lynda að styðja Steingrím J. Sigfússon til að gegna því valda- og virðingarembætti sem forseti Alþingis er. Allt er þetta í boði Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann tók við formennsku flokksins af Geir Haarde sem Steingrímur átti mestan þátt í að var dreginn fyrir Landsrétt, einn Íslendinga frá upphafi Íslandsbyggðar.

Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn situr sjálfur í vinstri stjórn er hreint ekki trúverðugt þegar frambjóðendur flokksins vara við hættu af vinstri stjórn. Eða er vinstri stjórn bara góð ef Sjálfstæðisflokkurinn er í henni en annars vond? Frambjóðandinn ungi þarf að kynna sér sögulegar staðreyndir betur áður en hún ryðst fram á ritvöllinn í aðdraganda kosninga með hjákátlegar meiningar eins og reyndin var í fyrrnefndri blaðagrein.

Telur Berglind að Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðað kjósendum sínum það fyrir síðustu kosningar að hann stefndi að þátttöku í ríkisstjórn undir forsæti formanns sósíalista? Flokkurinn gerði það ekki. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins höfðu réttmætar væntingar um að atkvæði greitt flokknum yrðir ekki ávísun á vinstri stjórn undir forystu formanns Vinstri grænna og því var myndun þessarar ríkisstjórnar ekkert annað en svik við kjósendur – svik sem þeir mættu muna þegar þeir standa við kjörborðið 25. september næstkomandi.

Berglind leggur allt kapp að upphefja Sjálfstæðisflokkinn og gera lítið úr öðrum flokkum. Ekki benda skrif hennar til þess að hún sé vel að sér um sögu flokksins og stjórnmála á Íslandi frá miðri síðustu öld fram til dagsins í dag. Hún talar um flokkinn sem langstærsta flokkinn sem mælist iðulega með tvöfalt fylgi á við þann næsta. Í síðustu kosningum náði Sjálfstæðisflokkurinn 25,3 prósenta stuðningi en VG var með 16,9 prósent. Það er fjarri því að vera tvöfalt á við næsta flokk! Til að tvöfalda 16,9 prósent hefði Sjálfstæðisflokkurinn þurft að hljóta stuðning 33,8 prósenta kjósenda en var fjarri því. Sjálfstæðisflokkurinn var lengi með 37 til 40 prósenta fylgi. En það er löngu liðin tíð. Í fernum síðustu þingkosningum hefur fylgi flokksins verið að meðaltali í kringum 25 prósent sem er hrun frá því sem áður var – áður en Bjarni Benediktsson tók við formennsku í flokknum. Þessar staðreyndir verður Berglind að kynna sér þar sem hún er komin í framboð fyrir flokkinn og sækist eftir þingsæti. Annað er slæmt veganesti fyrir nýliða í pólitískri umræðu.

Í grein sinni hreytir Berglind ónotum í Samfylkinguna og henni virðist jafnframt vera mjög uppsigað við Viðreisn. Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að þessir tveir frjálslyndu miðjuflokkar eru ógn við Sjálfstæðisflokkinn og gætu samtals fengið meira kjörfylgi en hann í komandi kosningum. Berglind heldur því fram að Viðreisn stefni í stjórn til vinstri. Ekkert liggur fyrir um það. Hitt er víst að aldrei hefur Viðreisn setið í vinstri stjórn undir forsæti formanns sósíalista eins og Sjálfstæðisflokkurinn nú. Þetta er ísköld staðreynd sem frambjóðandinn ungi þyrfti að horfast í augu við.

Þegar kemur að vinstri stjórnum er glannalegt hjá sjálfstæðismönnum að benda á aðra.

- Ólafur Arnarson