Veiru-skuldahalann þarf að borga með sölu ríkiseigna

Ástæða er til að hrósa viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við Covid-19 heimsfaraldrinum. Eflaust má gagnrýna margt en í sanngirni verður ekki annað sagt en að ríkisstjórn Íslands, og raunar stjórnarandstaðan líka, hafi staðið sig með sóma. Samstaða stjórnar og stjórnarandstöðu gegn þessari vá hefur verið aðdáunarverð og til eftirbreytni. Í baráttunni við sjálfa veiruna hefur okkur Íslendingum auðnast að hlíta ráðum færustu sérfræðinga en ekki látið glepjast af málflutningi lýðskrumara. Samanburður við næstum öll önnur lönd er Íslandi mjög í hag.

Fyrir einu og hálfu ári hefði fáa órað fyrir því að innan skamms myndi heimurinn lokast, ferðamenn hætta að koma til Íslands, verð sjávarafurða lækka og ríkið taka að sér bróðurpart launagreiðslna til þúsunda starfsmanna í einkageiranum, veita milljarða í styrki og gangast í ábyrgð fyrir rekstralánum til fyrirtækja auk þess að gefa greiðslufrest á opinberum gjöldum. Þetta gerðist nú samt og án slíkra aðgerða væri íslenskt atvinnu- og efnahagslíf í rúst.

700 milljarða skuldahali

Ríkissjóður var rekinn með 270 milljarða halla á síðasta ári og í ár er gert ráð fyrir ríflega 320 milljarða halla. Frá 2022-26 er búist við 5-600 milljarða uppsaöfnuðum fjárlagahalla. Bólusetningar gegn Covid ganga hins vegar betur en á horfðist og líkur eru á að ferðaþjónustan taki við sér fyrr en reiknað var með og að hallinn verði minni en óttast hafði verið. Samt sem áður blasir við að bein áhrif á ríkissjóð af Covid-19 verði uppsafnaður hallarekstur upp á að minnsta kosti 700 milljarða.

Miðað við verðbólguhorfur, gengisþróun og nýhafið vaxtahækkunarferli Seðlabankans má reikna með að raunverulegur kostnaður ríkisins af 700 milljarða skuldahala geti numið 30-40 milljörðum á ári. Á fimm árum eru þetta allt að 200 milljarðar. Til samanburðar renna 77 milljarðar til rekstrar Landspítalans í ár.

Norska leiðin

Hvernig skal borga 700 milljarða skuldahala? Fljótleg skoðun á fyrirtækjum í eigu ríkisins leiðir í ljós að ríkið á að minnsta kosti 1100 milljarða í fimm fyrirtækjum, Isavia, Íslandsbanka, Landsvirkjun, Landsbankanum og Rarik. Á næstunni verður 25 prósenta hlutur í Íslandsbanka seldur í opnu útboði. Heildarvirði eiginfjár bankans er um 185 milljarðar og mögulegt að salan skili hátt í 50 milljörðum til ríkisins og bankinn allur nálægt 185 milljörðum. Eigið fé Landsbankans er um 260 milljarðar. Ýmsir telja skynsamlegt að fara svokallaða norska leið varðandi eignarhald á bönkum hér á landi. Hún felst í því að ríkið haldi kjölfestuhlut í einum banka. Ákveði ríkið að halda eftir 30 prósenta hlut í Landsbankanum getur sala á hlutafé hans skilað nálægt 180 milljörðum. Bankasala getur því skilað 360 milljörðum, eða um helmingi Covid-skuldahalans.

Isavia og Rarik eru um 100 milljarða virði. Eigið fé Landsvirkjunar er bókfært á tæpa 600 milljarða í bókhaldi íslenska ríkisins en raunverulegt virði kann að vera fjórföld sú tala. Sala á 49 prósenta hlut gæti því skilað ríkissjóði meira en 360 milljörðum. Með öllu er þó óvíst að almenn samstaða náist um sölu á hlut ríkisins í Landsvirkjun.

Veltum ekki vandanum á komandi kynslóðir

Seld ríkisfyrirtæki starfa áfram, borga laun og skila gjöldum og sköttum til ríkisins og samfélagsins. Því er ekki eins og þau hverfi af yfirborði jarðar og hætti að vera „mjólkurkýr“ ríkisins við það eitt að losað sé um fé sem bundið er í þeim.

Ótaldar eru hér aðrar eignir sem ríkið er með fé bundið í, þar á meðal fasteignir. Í bókhaldi ríkisins er verðmat fasteigna afar varfærið. Ótalda milljarða má losa með sölu fasteigna og eðlilegt að setja spurningamerki við það hvort ríkið sé sérlega vel fallið til að reka fasteignir – hvort ekki sé heppilegra að sérhæfð fasteignafélög í einkageiranum annist slíkt og ríkið leigi þær fasteignir sem það notar en bindi ekki milljarða á milljarða ofan í steinsteypu.

Ljóst er að ýmis tækifæri eru til að vinda hratt og örugglega ofan af covid-skuldahalanum og tryggja að hann verði ekki byrði á núverandi og komandi kynslóðum.

Ólafur Arnarson