Veiran er ótrúlega skæð – Hinir smituðu búsettir í sama stigagangi

Einstaklingarnir tveir sem greindust með COVID-19 utan sóttkvíar hér á landi um helgina tengjast ekki að öðru leyti en að búa á sömu hæð í sama stigagangi fjölbýlishúss á höfuðborgarsvæðinu.

Frá þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag. Þórólfur segir að þetta sýni, svo ekki verður um villst, hversu skæð veiran er og hversu lítið hún þarf til að dreifast.

Ekki er vitað hvort smitið tengist lyftuhnappi eða jafnvel handriði í fjölbýlishúsinu.

Þórólfur segir að næstu tveir eða þrír dagar muni skera úr um framhaldið, meðal annars hvort þær afléttingar innanlands sem ráðist hefur verið í að undanförnu verði endurskoðaðar.

Nánar er fjallað um upplýsingafundinn á vef Fréttablaðsins.