Vaxtabætur aldrei lægri en í ár

Upphæð vaxtabóta í ár verður sú lægsta síðan vaxtabótakerfið var sett á fót, að því er kemur fram í frétt Stundarinnar í dag.

Fjárhagslegur stuðningur við leigjendur hækkaði um áramótin en vaxtabætur halda áfram að dragast saman. Þær voru lækkaðar úr 4,3 milljörðum króna í 4 milljarða á milli ára á fjárlögum og hafa aldrei verið lægri að raunvirði.  Húsnæðisbætur til leigjenda eru nú hærri en vaxtabætur til eigenda húsnæðis, segir í fréttinni.

Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu reiknireglur vaxtabóta verða þær sömu fram til ársins 2023 og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta standa í stað að raungildi næstu árin. Endurskoðun stefnu um bótakerfi, tekjuskatt og húsnæðisstuðning frestaðist vegna stjórnarskipta og því óljóst hvaða upphæðir verða settar í málaflokkinn til lengri tíma, segir í frétt Stundarinnar.