„Vara­samast“ að far­aldurinn og við­brögð verði að miklu kosninga­máli

Eitt af því sem er hvað vara­samast á næstu vikum er að staða far­aldurs CO­VID-19 og við­brögð við honum verði að miklu kosninga­máli í Al­þingis­kosningunum í haust. Þetta segir Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar í færslu á Facebook.

„Kosningar til Al­þingis eiga að - verða að - snúast um það hvernig flokkarnir ætla að tækla efna­hags­mál og sam­fé­lags­mál á næsta kjör­tíma­bili. Ekki um það hvort farið hafi verið ná­kvæm­lega eftir til­lögum í minnis­blöðum sótt­varnar­læknis eða hvernig bólu­setningá­ætlun hafi gengið eða fleira í þeim dúr,“ segir Jóhannes.

Hann segir stjórn­mála­flokkana þurfa að setja fram sýn á fram­tíðina, á endur­reisn efna­hags­lífsins, at­vinnu­lífs og sam­fé­lags upp úr kreppu­á­standi, hvernig þeir sjá fyrir sér að ná sam­fé­laginu upp úr þessum skurði sem CO­VID hefur grafið undan­farin ár.

„Hvernig hyggjast þeir tak­marka sam­fé­lags­legan kostnað eftir kreppuna, tryggja lífs­kjör til fram­tíðar og leiða þjóðina í átt að meiri al­mennri vel­sæld? Og svo þurfum við að sjá full­trúa þeirra takast á um stefnurnar, heyra rök og gagn­rök fyrir mis­munandi sýn flokkana á þessi mál­efni. Á því byggjast lýð­ræðis­legar kosningar,“ segir Jóhannes.

„Við höfum séð það í öðrum löndum undan­farna mánuði hvað gerist þegar far­aldurinn er gerður að kosninga­máli. Það þvælist bara fyrir um­ræðunni sem þarf að fara fram um fram­tíðar­sýn fyrir sam­fé­lagið. Ég vona inni­lega að fólki í stjórn­málum og fjöl­miðlum lánist að forðast slíkar keldur á næstu vikum.“