Varar fórnar­lömb kóróna­veirunnar við því að fagna of snemma: Helga sló niður eftir stuttan göngutúr

Helgi Jóhannes­son lög­fræðingur veiktist af kórónu­veirunni fyrir þremur vikum. Hann var út­skrifaður síðustu helgi. Í sam­tali við Vísi biður hann fólk um að fara var­lega, reyna með öllum ráðum að komast hjá því að sýkjast af veirunni. Þá segir hann að þeir sem veikjast ættu að hafa í huga að bara­ferlið sé langt. Hann segir við Vísi að þrátt fyrir að hafa út­skrifast sé tölu­vert í það að hann nái fullri heilsu.

„Ég var alveg hálfan mánuð hund­veikur og núna er ég búinn að vera í viku á hálfu gasi,“ sagði Helgi í Bítinu í morgun og bætti við að hann væri mjög brot­hættur eftir veikindin.

„Því manni slær niður og fær kannski hita bara af því að gera eitt­hvað ör­lítið.“ Sjálfur fór Helgi í stuttan göngu­túr eftir að hafa verið út­skrifaður og við það hafi honum slegið niður. Smári Mc­Cart­hy þing­maður Pírata sem einnig veiktist af veirunni en var þó ein­kenna­lítill tekur undir með Helga. Smári segir á Face­book að hann hlakki til að komast út úr húsi og fara í göngu­túr á öðrum stað en í stofunni.

„Tek undir með Helga hér. Ég geri ráð fyrir að út­skrifast á morgun, en er í rauninni enn frekar slappur á ýmsa vegu þótt ég sé ein­kenna­laus. Þótt ég hafi sloppið við verstu ein­kennin eru lungun í mér ekki alveg í besta standi eftir þetta.“