Varað við vegar­kafla áður en um­ferðar­slys átti sér stað: „Þetta mal­bik er dauða­gildra“

Al­var­­legt um­­­ferðar­­slys átti sér stað á Vestur­lands­vegi á Kjalar­nesi á fjórða tímanum í dag þegar tvö mótor­hjól og hús­bíll lentu í á­rekstri. Þrjú voru flutt al­var­lega slösuð á bráða­mót­töku eftir slysið.

Ás­­geir Þór Ás­­geirs­­son, yfir­­lög­­reglu­­þjónn, sagði að á­reksturinn hafi átt sér sér stað á vegar­kafla þar sem ný­lagt mal­bik var nokkuð sleipt eftir rigningu fyrr um daginn.

Sjá einnig: Þrír fluttir alvarlega slasaðir á bráðamóttöku eftir árekstur

Varaði við veginum

Stuttu áður en slysið átti sér stað var varað við téðum vegar­kafla í Face­book hópnum Færð og veður á Kjalar­nesi. Einn með­limur hópsins sagði vegar­kaflann vera stór­hættu­legan þar sem fljúgandi hált væri þegar mal­bikið væri blautt. „Dauða­gildra,“ sagði hann að lokum.

Fjöldi fólks tók undir þetta og lýstu því að hafa lent í hremmingum á svæðinu. „Í rigningunni á föstu­dag hélt ég að ég væri að missa dekk undan bílnum þegar hann fór að rása svona mikið. Stoppaði ein­mitt við vigtar­planið til að at­huga með það og gerði mér þá grein fyrir hversu hættu­legur vegurinn er í rigningu,“ sagði einn með­limur hópsins.

Missti stjórn í rigningunni

„Þetta mal­bik er dauða­gildra. Bíllinn skautar enda­laust á þessu og missir allt grip. Hræði­legt alveg hreint,“ sagði annar sem hafði slæma reynslu af veginum. „Hvað þurfa margir að deyja svo að þetta verði lagað!“

Einn notandi benti á að svo­kallaðir tjöru­vegir líkt og sá sem um ræðir væru ó­dýrari í fram­leiðslu en steyptir vegir og því vin­sæll kostur hjá Vega­gerðinni þrátt fyrir að oft þurfi að gera við þá.

Ekki náðist í Vega­gerðina við gerð fréttarinnar.