Var vondur við konur og hættir við fram­boð: Ýmis­legt ó­upp­gert úr for­tíðinni

Kol­beinn Óttars­son Proppé, þing­maður Vinstri hreyfingarinnar græns fram­boðs, hefur dregið fram­boð sitt til baka til annars Reykja­víkur­kjör­dæmisins vegna kvartana sem bárust ný­verið til fagráðs VG.

Þessu greinir Kol­beinn sjálfur frá í til­kynningu á sam­fé­lags­miðlum. Þar segir hann að hann hafi komið illa fram við konur og að nýjasta bylgja #met­oo hafi vakið hann til um­hugsunar.

„Ég hef gefið til kynna lang­tíma­sam­band, byggt á heitum og djúpum til­finningum. Og þær hafa verið það. En svo hleyp ég í felur, brest undan. Hugsa meira um að verja mig mögu­legum skaða en það hvernig ég kem fram. Geri það því illa, kem illa fram. Læt konunum líða eins og þær hafi ekki skipt mig máli, sem er kol­rangt. Að þær geri það ekki lengur, sem er líka kol­rangt. Skríð inn fyrir skelina mína og í öryggið og ein­mana­leikann þar,“ segir Kol­beinn í færslu sinni.

Hann segir að á sama tíma hafi hann oft verið svo ein­mana að til­finningin hafi hel­tekið hann og á­hyggjur af því að vera alltaf einn.

„Minn mesti ótti er að ég sé dæmdur til að vera einn af því að ég geti ekki gefið það af mér sem þarf til að koma í veg fyrir ein­mitt það,“ segir Kol­beinn.

Hann segist hafa sína djöfla að draga og að það sé ýmis­legt ó­upp­gert úr for­tíð hans. Hann hafi þó undan­farna mánuði fundið eitt­hvað breytast innan í sér.

„Nú er mikil og þörf bylgja í gangi þar sem konur segja frá. Það er að­dáunar­vert að þær geri það og ég vona inni­lega að gott komi út úr því,“ segir Kol­beinn og að í kjöl­farið á því hafi verið leitað til fagráðsins með kvartanir vegna hegðunar hans.

Hann segir að ferlið hafi opnað augu hans en að hann hafi engu að síður á­kveðið að gefa kost á sér í for­vali í Reykja­vík.

„Um­ræða undan­farinna daga hefur hins vegar gert það að verkum að ég hef endur­skoðað þá á­kvörðun,“ segir Kol­beinn.

Hann segir að lokum að hann sé hluti af valda­kerfi og feminískum flokki sem eigi að standa með konum og að hann geti ekki staðið með sjálfum sér og konunum sem líður illa hans vegna á meðan hann er í fram­boði fyrir VG.

Hann segir að hann einn beri á­byrgð á hegðun sinni og biðst af­sökunar á henni.

„Það góða kom út úr þessu öllu að ég er að leita mér að­stoðar til að ráða betur við sam­skipti og tengsl og mun halda því á­fram. Það er hins vegar best fyrir öll að ég boði brott­för mína úr hinu opin­bera rými í haust. Ég dreg fram­boð mitt í for­vali Vinstri grænna í Reykja­vík til baka og verð því ekki í fram­boði í kosningunum. Ég þakka öllu því góða fólki sem hvatti mig og studdi og þykir leitt að valda því von­brigðum,“ segir Kol­beinn að lokum.

Færsluna er hægt að lesa í heild sinni hér að neðan

Dreg framboð mitt til baka Ég hef í all nokkur ár átt í erfiðleikum með að mynda náin tengsl. Kemur þar ýmislegt til, en...

Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Tuesday, 11 May 2021

Fleiri fréttir