Var með 8 milljónir í peningum en gat bara keypt sér 27 milljóna íbúð

„Ég er öryrki og verið í mörg ár. Ég lenti á leigumarkaðnum í sumar vegna skilnaðar,“ segir einstaklingur í Samtökum leigjenda á Íslandi, en í gær birtist nafnlaus frásögn á Facebook-síðu samtakanna.

Samtökin voru endurreist á dögunum í þeim tilgangi að efla stöðu leigjenda hér á landi. Hafa samtökin bent á að staða leigjenda hér á landi sé of veik, réttindi þeirra lítil og húsnæðiskostnaður of hár. Í frásögn sinni segist einstaklingurinn hafa farið í greiðslumat til að kaupa húsnæði og möguleikarnir verið takmarkaðir eftir það.

„Ég var með 8 milljónir í peningum, en þar sem örorkubætur eru ekki háar, fékk ég það mat að geta keypt húsnæði fyrir 27 milljónir. Ég fann tvær eignir. Önnur var í Breiðholti fyrir ofan matvörubúð með bröttum stiga upp á svefnloft, það gekk ekki. Hin var kjallaraíbúð í Hlíðum, en ég sá fram á ég réði ekki við viðhald á húsi og íbúð fyrsta árið. Það var engin framkvæmdasjóður til í húsfélaginu,“ segir viðkomandi sem endaði þá á leigumarkaðnum, enda önnur sund lokuð.

„Ég þurfti ekki greiðslumat þar, bara credit info. Leigan var 189 þúsund krónur á mánuði í júlí, en er nú komin í 192 þúsund krónur. Húsaleigubætur er 32 þúsund krónur. Ég er með útborgað frá lífeyrissjóð og Tryggingastofnun kr. 321.474. á mánuði. Tæplega 50% af ráðstöfunarfé mínu fer því í húsaleigu, eftir húsnæðisbætur. Meira ef ég tel rafmagn og hita með,“ segir viðkomandi sem endar frásögn sína á þessum orðum:

„Það sem mér þykir sárast er að hafa ekki geta keypt eigið húsnæði. Ég borga í dag miklu meira á mánuði en greiðslumatið gerði ráð fyrir að ég réði við. Minn sjóður, sem ég átti eftir skilnaðinn er að brenna upp og verða að engu.“