Var Guðmundur Ingi ekki á sömu ráðstefnu og aðrir?

Í grein, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, gerir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra upp loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem stóð yfir í tvær vikur í Glasgow en er nú lokið. Fyrirsögnin sem hann velur á grein sína er: „Árangursríkur fundur“.

Í Glasgow komu saman tugir þúsunda til að ná samkomulagi um aðgerðir til að tryggja að meðalhlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C. Í hópnum voru ráðherrar og önnur fyrirmenni, mikill fjöldi embættismanna, áhugamenn um loftslagsmál og nokkrir auðkýfingar gáfu sér tíma, á milli þess sem þeir skutust út í geim á einkaflaugum sínum, til að skreppa á einkaþotum sínum til Glasgow. Nokkra helstu pótintátana vantaði þó. Ekki kom það samt í veg fyrir að mektarfólkið kæmi á 400 einkaþotum til Glasgow til að ná samkomulagi um að minnka kolefnisspor jarðarbúa.

Öllu var til tjaldað til að bjarga heiminum á síðustu stundu, enda sagði Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands að dómsdags-klukkuna vantaði aðeins eina mínútu í miðnætti. Sennilega er það ástæðan fyrir öllum þessum fjölda einkaþotna. Ef vesalings fólkið, sem reynir að bjarga okkur frá sjálfum okkur, hefði þurft að reiða sig á almennt farþegaflug og aðrar almenningssamgöngur er óvíst að það hefði náð á fundinn í tæka tíð til að bjarga heiminum. Zoom-fundur kom svo vitanlega ekki til greina, allir vita hvað slíkir fundir verða flóknir þegar þátttakendur eru fleiri en tíu, hvað þá ef þeir eru orðnir tíuþúsund eða fleiri.

Niðurstaða fundarins varð því miður engin. Ekkert samkomulag sem tryggir að meðalhlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C. Nei, rétt eins og fyrir Glasgow stefnir í hlýnun upp á að minnsta kosti 2,4°C miðað við þau loforð sem þjóðir heims hafa gefið. Greta Thunberg, hin sænska, kallaði Glasgow-ráðstefnuna bla bla bla fund og hefur sú niðurstaða hennar ekki verið hrakin með rökum. Jafnvel íslenska umhverfisráðherranum tekst ekki að blekkja neinn nema mögulega sjálfan sig þegar hann segir fundinn hafa verið árangursríkan.

Yfirlýsing fundarins er síðan skjal sem ráðuneytisstjórinn Sir Humphrey Appleby hefði verið fullsæmdur af, eins og höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins benti réttilega á í bréfi sínu um helgina. Yfirlýsingin er lítið annað en almennt blaður með orðalagi sem sérhannað er til að það merki í raun ekki neitt þótt í því komi fyrir mörg falleg orð og hugtök. Hvergi í yfirlýsingu fundarins er neitt áþreifanlegt. Eftir stendur að ráðstefnan var sýndarmennskan ein og hræsni af bestu sort.

Nema einhver annar fundur hafi farið fram í Glasgow og Guðmundur Ingi sé að vísa til hans. Var íslenski umhverfisráðherrann kannski á allt öðrum fundi? Það gæti skýrt grein hans í Fréttablaðinu í dag.

- Ólafur Arnarson