Vanda sorgmædd og svaf ekki eftir ákvörðunina: „Ég var eiginlega buguð eftir þetta“

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segist hafa verið buguð og sorgmædd eftir að stjórn KSÍ tók þá ákvörðun um að virkja uppsagnarákvæði í samningi Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrrum aðstoðarlandsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Vanda var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 þar sem þetta var meðal annars til umræðu.

„Ég ætla vera hreinskilinn, ég var eiginlega buguð eftir þetta, fannst þetta hrikalega leiðinlegt og var sorgmædd í hjartanu að við hefðum þurft að komast að þessari sameiginlegu niðurstöðu. Ég hefði bara farið að gráta, ég var bara þar. Ég bað Ómar Smárason um að fara í viðtölin fyrir mig. Ég þurfti bara aðeins að ná mér. Ég gat eiginlega ekkert sofið þessa nótt og leið ömurlega,“ sagði Vanda meðal annars.

Vanda var gagnrýnt nokkuð harðlega af íslenskum íþróttafréttamönnum fyrir að svara ekki fyrirspurnum fjölmiðla um málið.

„Það var ekkert að segja, í yfirlýsingunni og í þeim svörum sem Ómar gaf var allt sem var að segja,“ sagði Vanda en Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar sambandsins, svaraði fyrir málið.