Vanda segir að ásakaðir leikmenn eigi afturkvæmt: „Þannig er þetta hjá klúbbnum hans Kolbeins“

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segir að leikmenn íslenska karlalandsliðsins sem hafi verið sakaðir um kynferðisofbeldi eða ofbeldi eigi að fá afturkvæmt í landsliðið. Minnst sex leikmenn karlalandsliðsins hafa verið sakaðir um ofbeldi.

Vanda sagði í viðtali við 433 á Hringbraut að unnið sé að ferlum innan KSÍ til að takast á við svona mál. Sjálf vill hún að leikmenn sem sakaðir eru um brot eigi endurkomuleið inn í liðið, hefur hún kynnt sér hvernig þetta er annarsstaðar.

„Þannig er þetta svo víða. Þannig er þetta hjá klúbbnum hans Kolbeins. Þannig er þetta hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Þannig er þetta hjá mjög mörgum fyrirtækjum,“ sagði hún og vísar til Kolbeins Sigþórssonar.

Mál Kolbeins kom upp í september en hefði átt að útiloka leikmenn sem hafði leyst sitt mál fyrir nokkrum árum? „Þetta er góð spurning en erfið. Ég hef alveg sagt, stjórn á ekki að skipta sér af vali. Ég er ekki dómbær á þetta mál því ég var ekki þarna, fyrri stjórn var í erfiðum aðstæðum. Ég vil ekki gagnrýna það sem þau ákváðu. Það þarf að draga lærdóm, ef það hefðu verið ferlar. Þá hefði það verið klippt og skorið," sagði Vanda.