Valur ritstjóri ósáttur: „Ef það væri einhver dugur í menntamálaráðherra myndi hann hirta fjölmiðlanefnd“

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, skrifar ítarlega grein á vef Vísis um falsfréttir á tímum stríðs. Tilefni skrifa hennar er innrás Rússa í Úkraínu og áróður Rússa, sem og fleiri, í tengslum við fréttir af stríðinu.

„Áróðursstríð er hluti af stríðsátökum og áróðursefni sem dreift er í slíku stríði á 21. öld er ætlað að vekja sterk tilfinningaleg viðbrögð. Engin ástæða er til annars en að ætla að slíkur áróður berist að ströndum Íslands eins og annarra ríkja. Því er afar mikilvægt að almenningur sé gagnrýninn á það sem hann les og sér,“ segir hún.

Valur Grettisson, ritstjóri Reykjavik Grapevine, setur stórt spurningamerki við þetta útspil Elfu:

„Þessi grein eftir framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar, væri kannski trúverðug ef Fjölmiðlanefnd sjálf gæti skilið muninn á falsfréttum og trúverðugum fréttastofum,“ skrifar hann á Facebook.

„Nefndin, undir forystu Elfu Ýr Gylfadóttur, hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum skráð frettin.is sem fjölmiðil, sem og Útvarp Sögu. Sem eru einu rugludallarnir á Íslandi sem dreifa bullinu úr Russian Today og öðrum samskonar áróðurssíðum.“

Hann tekur svo sérstaklega fyrir Frettin.is sem stýrt er af Margréti Friðriksdóttur. Hann er ekki sáttur:

„Fjölmiðlanefnd lítur greinilega svo á að frettin.is sé trúverðugur miðill, enda skráður sem fjölmiðill hjá nefndinni,“ segir Valur:

„Ef það væri einhver dugur í menntamálaráðherra myndi hann hirta fjölmiðlanefnd fyrir þennan ótrúlega dómgreindabrest. Þangað til er varla annað hægt en að hlæja að greinaskrifum Elfu og fylgjast með ráðherrum roðna af skömm í hvert sinn sem frettin.is birtist á blaðamannafundum hjá þeim og spyr hvernig tilraunalyf séu að drepa öll börn heimsins samkvæmt öruggum heimildum á AxelPétur.is“