Valhöll nötrar af kosningaótta

Þrjár skoðanakannanir sem birtar hafa verið í vikunni benda til þess að fylgið reytist af Sjálfstæðisflokknum og mælist flokkurinn nú með 21-22 prósent sem er nokkru lægra en kannanir hafa sýnt það sem af er ári. Eftir gríðarlega auglýsingaherferð í Morgunblaðinu, á strætóskýlum, í útvarpi, sjónvarpi og víðar, áttu sjálfstæðismenn von á því að fylgið væri á uppleið en ekki niðurleið. Skoðanakannanirnar hafa því valdið miklum taugatitringi innan flokksins og aukinni skjálftavirkni í Valhöll og víðar. Ástandið í Valhöll, og innan flokksins í Reykjavík, er reyndar afleitt. Ljóst er að sárin eftir harkalegan prófkjörsslag milli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem er fulltrúi flokkseigendafélagsins, eru hvergi nærri gróin. Sárin eru djúp, enda lagði Guðlaugur Þór flokkseigendafélagið. Hann stóð einn gegn formanni flokksins, varaformanni og ritara, sem öll studdu Áslaugu Örnu ljóst og leynt, rétt eins og Morgunblaðið, en faðir Áslaugar er formaður stjórnar útgáfunnar. Allan þennan hóp hafði Guðlaugur Þór undir og undan því svíður. Baráttuandinn í flokknum í Reykjavík er því lítill og nærri frostmarki.
Á móti hefur verið bent á að sjálfstæðismenn þurfi ekki að örvænta þrátt fyrir slæmar skoðanakannanir rúmri viku fyrir kosningar. Mörg dæmi eru um að flokkurinn hafi náð betri kosningu en skoðanakannanir bentu til, eins og t.d. í síðustu Alþingiskosningum. Þetta er þó ekki einhlýtt, ekki síst vegna þess að menn þykjast skynja að umhverfið sé mikið breytt og sífellt verði erfiðara að ráða í fyrirætlanir kjósenda.
Frést hefur að þingmenn flokksins geti illa leynt áhyggjum sínum og vonbrigðum. Einn þeirra sagði í margmenni fyrr í vikunni að óskiljanlegt væri að Morgunblaðið skyldi hafa leyft sér að birta skoðanakönnun síðastliðinn mánudag sem sýndi flokkinn á niðurleið og kominn niður í 22 prósent fylgi en miðjuflokkana Framsókn og Viðreisn á hraðri uppleið; Framsókn með 15 prósent og Viðreisn með meira en 12 prósent. Spurt var hvað þingmanninum fyndist blaðið hafa átt að gera. Ekki stóð á svarinu: „Mogginn átti ekki að birta þetta.“
Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins einkennist af taugaveiklun og ótakmörkuðu peningaaustri. Þannig lét flokkurinn dreifa 24 blaðsíðna áróðursriti með Morgunblaðinu í dag þar sem reynt er að draga upp glansmynd af ýmsum frambjóðendum og flokksmönnum. Upphrópanir ráðandi og sneitt hjá allri raunverulegri stjórnmálaumræðu. Nú er flokkurinn orðinn „LAND TÆKIFÆRANNA“. Stundin snýr skemmtilega út úr þessu og talar um „LAND TÆKIFÆRISSINNANA“ – sem er vitanlega nær lagi!
Sjálfstæðisflokkurinn býr að gamalli og vel smurðri kosningamaskínu sem víða er keyrð af krafti. En það gengur misvel vegna ágreinings, eins og til dæmis í Reykjavík, en miklu betur í Suðurkjördæmi þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir hefur komið fersk inn og þarf ekki að svara fyrir svikin kosningaloforð og eitrað samstarf við Vinstri græna á kjörtímabilinu sem er að líða. Hún er sögð hafa náð upp góðri stemningu í kjördæminu. Ekki verður sama sagt um Norðausturkjördæmi. Þar á flokkurinn í vök að verjast og gæti misst annan þingmann sinn til Framsóknar.
Dapurlegt er að sjálfstæðismenn hugsi nú fyrst og fremst um að reyna að tryggja áframhaldandi völd með því að núverandi vinstri stjórn haldi velli og Vinstri grænir leyfi Sjálfstæðisflokknum að vera áfram undir verndarvæng þeirra. Öðruvísi mér áður brá.
- Ólafur Arnarson