Vaknaði úr dái nokkrum vikum síðar með 47 brotin bein

„Það var oft sagt við mig að ég myndi drepa mig, ég var svo klikkaður,“ sagði Berent Karl Hafsteinsson, eða Benni Kalli eins og hann er oftast kallaður, í Mannlega þættinum á Rás 1 á dögunum.

Fjallað er um viðtalið á vef RÚV en þar sagði Berent frá skelfilegu slysi sem hann lenti í á Akranesi árið 1992, þá rétt um tvítugt. Hann var í spyrnu við félaga sína á mótorhjóli þegar hann missti stjórn á hjólinu og endaði í grjótgarði úti við sjó.

„Ég vil ekki segja þér hvað ég var að keyra hratt, það var svo mikil geðveiki. Ég man sjálfur ekki marga mánuði fyrir, og marga mánuði eftir slys,“ sagði hann meðal annars en í viðtali í Fréttatímanum árið 2011 kom fram að hann hefði verið á um 200 kílómetra hraða þegar slysið varð.

Berent var fluttur með þyrlu á sjúkrahús og vaknaði úr dái þremur vikum eftir slysið með 47 brotin bein. „Það er vafasamt Íslandsmet en sýnir hve ótrúlega heppinn ég er, miðað við að hafa brotið úr níu hryggjarliðum og brákað tvo hálsliði.

Berent hefur verið duglegur að fræða unga fólkið um þær hættur sem leynast í umferðinni og talað opinskátt um slysið. Taka þurfti vinstri fót hans af fyrir neðan hné og notast hann við gervifót frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri.

Í viðtalinu dró hann ekki fjöður yfir það að slysið hefði verið hans eigin hugsunarleysi að kenna. Ekki sé hægt að kenna óheppni um heldur frekar kæruleysi og glannaskap.

Á þeim 30 árum sem liðin eru frá slysinu segist Berent ekki hafa verið verkjalaus í einn dag. Hann er sem fyrr segir með gervifót, stundar sjúkraþjálfun og fer í lyfjameðferð á Landspítalanum.

„Ég hef aldrei verið verkjalaus frá því ég slasaði mig, það hefur í raun bara versnað með árunum og aldrinum.“

Berent sagði mikilvægt að halda í jákvæðnina og benti á að það væri hægt að komast langt á viljanum og húmornum. „Ég geri óspart grín að sjálfum mér og vil meina að ég væri ekkert á lífi ef ég væri ekki nett kexaður og bara frekar jákvæður.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Berent.