Útvarpsmaður á Rás 2 vorkennir ekki stúdentum: „Slaka aðeins á iPhone og Apple tölvu kröfunni“

„Slaka aðeins á iPhone og Apple tölvu kröfunni, ekki vera á bíl og sleppa því að kaupa úlpu fyrir 200 k, ætti að fara langt með að bjarga fjárhagnum,“ segir Þorsteinn Hreggviðsson, útvarpsmaður í þættinum Streymi á Rás 2 á Twitter. Stúdentaráð Háskóla Íslands stendur nú fyrir herferð þar sem ítrekaðar eru kröfur um rétt til atvinnuleysisbóta. Þá þurfi að ráðast í aðgerðir til að sporna gegn erfiðri fjárhagslegri stöðu stúdenta.

Málið hefur verið til umræðu á Twitter, Þorsteinn, best þekktur sem Þossi, blandar sér í umræðurnar og segist ekki vorkenna stúdentum. Einn Twitter-notandi segir málið ekki snúast um kaup á merkjavöru, verð á leigu sé það sem skipti máli.

„Bara þetta sem ég var að segja er sparnaður upp á ca 4 milljónir yfir eitt BA eða BS. Jú það skiptir máli, meira að segja hellings máli. Ég geng fram hjá HÍ á hverjum degi og hugsa hvernig hafa þessir skítar efni á þessu,“ segir hann. „En leiga og framfærsla er alltof há ég er alveg sammála því - en ég er allavega ekki að segja það úr iPhoninum mínum, Canada Goose úlpunni minni og Alexander McQueen skónnum. Að lokum þá er fólk í Háskólanámi ekki í vinnu það er í námi sem þýðir að það á ekki rétt á atvinnuleysisbótum.“

Var hann þá sakaður um að vera „Boomer“, eða miðaldra. „Ég veit greinilega ekkert um þetta af því ég er boomer. Ég fór nú samt í gegnum háskólanám með 2 börn á námslánum og borgaði helling með okkur. Krakkarnir eru 15-23 núna þannig að ég held ég hafi ágætis innsýn í lífstíl unga fólksins.“