Útigangsmaður hótaði öllu illu: Þá kom lögreglukonan á svæðið

„Þetta fannst mér fag­mann­lega og eigin­lega fal­lega að verki staðið hjá löggunni,“ segir Illugi Jökuls­son, rit­höfundur og blaða­maður, í pistli í nýjasta tölu­blaði Stundarinnar sem kom út í dag.

Þar skrifar Illugi meðal annars um at­vik sem hann varð vitni að á Lauga­veginum fyrir nokkrum dögum. Illugi gekk þar fram á úti­gangs­mann sem hann kannast við í sjón.

„Við erum ekki mál­kunnugir en ég hef yfir­leitt kinkað til hans kolli og hann sömu­leiðis til mín. Hann hefur ævin­lega verið ljúfur bæði til orðs og æðis, hefur mér virst. Í þetta sinn var hann illa fyrir­kallaður, og svo drukkinn að hann hafði misst fótanna og sat upp við hús­vegg og komst ekki á fætur aftur,“ segir Illugi og bætir við að eitt­hvað hafi hlaupið í skapið á honum og hann urrað á alla sem áttu leið fram­hjá. Þar á meðal fá­eina sem gerðu sig lík­lega til að að­stoða hann. Þeir hafi hrein­lega hrokkið undan hótunum um líkams­meiðingar og bar­smíðar.

Illugi segir að skömmu síðar hafi komið að lög­reglu­kona á mótor­hjóli sem gaf sig á tal við manninn. Maðurinn tók henni illa, var með dóna­skap og urraði á hana.

Illugi bendir á að lög­reglu­konan hefði getað gert ýmis­legt í þessum að­stæðum. Til dæmis farið á hjólið sitt og ekið burt, dröslað honum á lappir og hand­járnað hann og kallað á fé­laga sína til að flytja hann í fanga­klefa.

„Hún gerði samt hvorugt meðan ég sá til. Hún settist á hækjur sér hjá karlinum, spurði hvort hann vildi ekki slaka svo­lítið á og þótt hann brygðist illa við því, þá rótaði hún sér hvergi heldur sat sem fastast og fór að spjalla í ró­leg­heitum við hann. Þegar ég sá síðast til var hún enn að masa við karl í mesta bróð­erni og ég heyrði ekki betur en hann væri hættur að urra og hóta líkams­meiðingum.“

Illugi segist ekki vita að hvort á endanum hafi þurft að færa manninn í klefa til að sofa úr sér. Það breyti þó engu um að lög­reglan hafi gefið sér tíma til að sinna manninum af þeirri virðingu sem hann átti skilið sem manneskja.

Illugi kemst svo ekki hjá því að tala um merkja­málið sem vakti mikla at­hygli í vikunni og það hryggi hann að þurfa að hafa það at­vik sem enda­punkt í pistli sínum. Hann segir að það sé eitt­hvað ó­þægi­legt við að í sama lög­reglu­liði og kann að fara vel að úti­gangs­manni sé fólk líka sem skreytir sig of­beldis­merkjum og kann svo ekki að skammast sín.