Út­för Johns Snorra fer fram í næstu viku: „Er í huga og hjarta okkar alla daga“

Út­för Johns Snorra Sigur­jóns­sonar, sem saknað hefur verið síðan 5. febrúar síðast­liðinn, fer fram í Vída­líns­kirkju þriðju­daginn 22. júní næst­komandi.

John Snorri var í hópi fjall­göngu­manna sem freistuðu þess að verða fyrstir til að klífa K2, næst­hæsta fjall heims, að vetri til. Viða­mikil leit var gerð að John Snorra og fé­lögum hans, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr en leitin bar ekki árangur.

Ferða- og í­þrótta­mála­ráð­herra Pakistans til­kynnti þann 18. febrúar að fjall­göngu­mennirnir væru taldir af. John Snorri var einn öflugasti fjall­göngu­maður heims og naut hann mikillar virðingar meðal annarra göngu­manna.

Lína Móey Bjarna­dóttir, eigin­kona Johns Snorra, birtir til­kynningu um út­förina á Face­book-síðu sinni og til­kynningu sem birtist í Morgun­blaðinu.

„John Snorri er í huga og hjarta okkar alla daga,“ segir Lína Móey meðal annars í færslu sinni.