Úrvalshráefni í kökur og brauð

Það er goðgá að henda gömlum bönönum, altént óhæfa fyrir þá sem eru á móti sóun matvæla. Auðvitað er hægt að hægja á öldrun banananna í skálinni uppi á eldhúsborði með því að plasta stilkana á enda þeirra með filmu sem loðir vel við þá - og það er raunar aðferð sem margborgar sig - en þegar það nægir ekki lengur er ekkert annað að gera en að nota þessa kjarnafæðu í bananabrauð, bananakökur eða bananamuffins. Best er að stappa allt heila gúmmilaðið með gaffli og setja svo saman við smjörlíki, sykur, egg og hveiti og kannski örlítið af salti og lyftidufti. Margir frysta líka háaldraða banana til nota í svona bakstur þegar tími og ráðrúm gefst, en munið; ekki henda svona úrvals efni í kökur og brauð.