Úrsúla Jünemann kennari og fyrrum frambjóðandi Íbúahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ er allt annað en sátt með Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
„Ég er sorgmædd og mjög reið. Svo skelfilega mikil neyð er í heiminum. Loftslagsvá er farin að bitna á fátækum þjóðum þar sem fólk hefur ekki lengur von um sómasamlegt líf. Stríð í mörgum löndum rekur fólk burt frá sínum heimahögum. Ríku löndin græða á tá og fingri á vopnasölunni. Vatnsskortur og hækkandi hiti eru á landsvæðum sem bjóða ekki lengur upp á ræktun og næga uppskeru,“ skrifar Úrsúla í Fréttablaðið í dag.
„Fólk neyðist til að yfirgefa fósturjörðina til að geta lifað af. Og við í ríku löndunum erum að mestu leyti að valda því með okkar gegndarlausu rányrkju og ofurneyslu. Svo er harðstjórn í mörgum löndum þar sem menn eru ofsóttir fyrir það að vera gagnrýnir og láta ekki allt yfir sig ganga. Eða einfaldlega að vera með önnur trúarbrögð, kynhneigð eða í minnihlutaþjóðflokki,“ bætir hún við.
Hún bætir við að á Íslandi er gott að lifa. „Að vísu hafa sumir það ekki of gott. En ef við hugsum okkur að auðstéttin myndi gefa eitthvað af öllum þessum milljörðum sem menn hafa sankað að sér í viðbjóðslegri græðgi þá gætu allir – jafnvel veikir, fatlaðir og aldraðir – haft það betra.“
„Nú sitjum við uppi með dómsmálaráðherra – þann versta í langan tíma – sem vill vísa hundruðum af erlendu flóttafólki miskunnarlaust úr landi. Margt af því hefur verið hér í þó nokkurn tíma, fest rætur, byrjað að læra tungumálið, unnið fyrir sér og eignast jafnvel börn. Hvers vegna fær þetta fólk ekki að búa hér? Það vantar jú fullt af vinnandi fólki í störf sem fáir Íslendingar kæra sig um. Hvað býr á bak við þessa fáránlegu ákvörðun að senda hundruð manna til Grikklands þar sem framtíðin er svört í ómögulegum flóttamannabúðum?“
„Hér er nógu mikið pláss, næg vinna í boði og framtíðin viðunandi. Jón Gunnarsson, þetta er mannvonska af versta tagi. Það þýðir ekkert að skýla sér bak við einhver ólög sem þú sjálfur eða þinn flokkur hefur komið á,“ skrifar Úrsúla að lokum.