Urða yfir hugmyndir Lilju: Frekar að setja sparnaðinn í spilakassa

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir ljóst að í vissum kreðsum er fátt talið mikilvægara í fari stjórnmálamanneskju en að hún sýni algjöran skilning á þörf kapítalista fyrir aðgengi að peningum almennings. Vísar hún þar til viðtals Markaðarins við Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og varaformann Framsóknarflokksins, þar sem hvetur almenning til að nota sparnað til kaupa á hlutabréfum.

„Hún notar vissulega orðið "þjóðþrifamál" um þetta áhugamál sitt. Kannski er það svo að gríðarleg eftirspurn er eftir stjórnmálafólki sem á sér fáa stærri drauma en að sparnaður fólks fari í kaup á verðbréfum?,“ segir Sólveig Anna á Facebook.

„Það er í það minnsta ljóst að í vissum kreðsum er fátt talið mikilvægara í fari stjórnmálamanneskju en að hún sýni algjöran skilning á þörf kapítalista fyrir aðgengi að peningum almennings, að hún viti að skattafsáttur til þeirra sem kaupa hlutabréf er ein besta gjöf frá ríkissjóði sem til er og að ef takast á að selja banka þarf að sannfæra fólk um að það sjálft eigi möguleika á að auðgast verulega með því að kaupa sér hlutabréf: "sparnaður fari í arðbær verkefni" eins og það heitir á vorum örlagaríku dögum.“

Heitar umræður hafa skapast á vegg Sólveigar Önnu um málflutning Lilju. Þar segir meðal annars Mörður Árnason, stjórnarmaður RÚV og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, þetta sambærilegt því og að hvetja fólk til að nota sparnaðinn í spilakassa. „róðinn af spilakössunum fer að minnsta kosti til Háskólans etc. -- en hinn gróðinn bara á bankareikninga aflendis,“ segir Mörður.