Uppsagnaalda í boði ríkisstjórnar

Undir­ritaður hefur nokkuð fylgzt með þróun mála í Evrópu og vestan hafs, hvað varðar að­gerðir stjórn­valda til varnar efna­hag og af­komu fyrir­tækja og laun­þega - al­mennings - gegn þeim vanda - eyði­leggingu og niður­rifi efna­hags­kerfa - sem Co­vid-19 veldur.

Ég hef hvergi annars staðar séð það gerast, að ríkis­valdið stuðlaði að fjölda­upp­sögnum, hvetti nánast til þeirra, með því, að bjóða fram veru­lega fjár­muni, sem fyrir­tæki í á­kveðinni stöðu gætu fengið til launa­greiðslna starfs­manna sinna, bara ef þau segðu þeim upp.

Ekki verður annað séð, en að ríkið taki á þennan hátt á sig heildar launa­greiðslu til laun­þega, allt upp í 633.000 krónur á mann á mánuði, að meðal­tali í 3 mánuði, með því skil­yrði, að ráðningar­samningi við við­komandi starfs­menn hafi verið sagt upp og rift.

Fyrir undir­rituðum er þetta hin furðu­legasta ráð­stöfun, en alls staðar annars staðar hefur mikill hluti af við­leitni stjórn­valda til að verja fyrir­tæki, störf og laun, gengið út á það and­stæða; að fyrir­tækin fengju stuðning og styrki til að halda mönnum í vinnu, virða og fara eftir gildandi ráðningar­samningum; segja þeim alls ekki upp.

Það á víst að vera skil­yrði ríkis­valdsins fyrir styrk við upp­sagnir, að styrk­þegi ráði sama fólkið aftur. En ný ráðning er nýr og ó­þekktur dagur.

Er ein­hver trygging fyrir því, að starfs­menn haldi á­unnum réttindum og fullum fyrri launum og fríðindum!? Hver ætti að tryggja slíkt? Hver getur fylgzt með ein­stökum ráðningar­málum og séð til þess, að réttindi og kjör laun­þega verði ekki rýrð við nýja samnings­gerð? Hver getur tryggt, að ekki verði annar maður ráðinn, í stað þessa gamla, sem sættir sig mögu­lega við lægri laun eða skert kjör?

Í kvöld­fréttum sjón­varps sl. þriðju­dag var við­tal við for­seta ASÍ, og það var ekki annað á henni að heyra, en að hún legði blessun sína yfir þessa að­gerð; hún tjáði sig á­nægða með, að sam­ráð hefði verið haft við verka­lýðs­hreyfinguna í þessu máli.

Ef hún hefði verið í for­svari fyrir at­vinnu­rek­endur, hefði mátt skilja hana, en, þar sem hún er for­seti ASÍ, verður að spyrja: Í hvaða af­dal skyldi þessi á­gæta kona vera stödd og for­sætis­ráð­herra með?

Auð­vitað hefði átt að verja þessum fjár­munum, sem eru hluti af nýjum að­gerða­pakka, þeim þriðja, upp á 40-60 milljarða, til þess að styrkja fyrir­tæki, smá og stór, með full­nægjandi hætti, til að þau gætu við­haldið og virt ráðningar­samninga, og alls ekki rift þeim eða sagt þeim upp. Í 3 mánuði, til að byrja með, en þess má vænta, að eftir það, verði hjól at­vinnu­lífsins farin að snúast nokkuð aftur, þannig, að að­lagi mætti og lækka fram­halds-stuðning ríkisins, sem auð­vitað þyrfti að halda á­fram, að því.

Slík ráð­stöfun hefði stuðlað að öryggi og vel­ferð manna og tryggt vissu og stöðug­leika. Launa­menn hefðu vitað, hvar þeir stæðu, og hefðu fengið mest mögu­legt skjól og öryggi á erfiðum tímum.

Fyrir undir­rituðum er al­menn af­koma ferða­þjónustu, víðs­vegar um landið, enn ó­leyst, þó að eig­endum margra þeirra hafi nú verið gert kleift - illu heilli, segi ég - að losa sig við starfs­menn sína, á einum til þremur mánuðum, án mikilla eigin fjár­út­láta.

Skyldi þetta líka virka fyrir hin fjöl­mörgu fjöl­skyldu­fyrir­tæki víða um landið? Ég sé það varla ganga upp. Þau virðast enn vera skilin eftir í eyði­mörkinni.

En, hvað tekur við, eftir upp­sagnar­frest? Staða verður þá auð­vitað gal­opin; um allt þarf þá að semja upp á nýtt, en slík samnings­gerð er auð­vitað full af ó­vissu, þó að at­vinnu­veit­endur lofi, á nú­verandi stigi, öllu góðu og ó­breyttu. Ég leyfi mér að full­yrða: Það verður ekkert samt og ó­breytt eftir 3 mánuði.

Að­gerða­pakkarnir 3 eru nú komnir í um 344 milljarða. Ég hef gert það að til­lögu minni, að boðaður ferða­styrkur á alla full­orðna lands­menn, sem átti að vera 5.000 krónur á mann, sem fyrir mér er meira grín en al­vara - einn kvöld­verður - verði hækkaður í 50.000 krónur, þannig, að ís­lenzkur al­menningur gæti nú í sumar heim­sótt og kynnt sér sitt land meira og betur, en áður hefur gerzt; fyllt gisti­staði, hótel og veitinga­staða landsins lífi; ís­lenzku lífi. Auð­vitað yrðu þeir að bæta veru­legum fjár­munum við. Ríki og sveitar­fé­lög myndu njóta skatta og skyldna.

Eftir slíka ís­lenzka ferða­öldu kynnu út­lendingar að byrja að fylla í skarðið og tryggja fram­hald í vaxandi mæli með haustinu.

Ef þessi leið væri farin, ferða­þjónustunni til halds og trausts, en um leið lands­mönnum til skemmtunar og til­breytingar, eftir álag og erfið­leika Kórónu, myndi þessi að­gerð fara úr 1,5 milljarði í 15 milljarða.

Nú­verandi heildar­pakki færi þá úr 344 milljörðum í 357,5 milljarða, sem í augum undir­ritaðs væri, í þessu sam­hengi, bita munur en ekki fjár. Góð fjár­festing.

Ef björgun á að takast, þannig, að þjóðar­skútan og allt, sem inn­byrðis er, standi af sér storminn, þarf að fara í 15-20% af lands­fram­leiðslu; 450-600 milljarða.

Inn á þá stærðar­gráðu eru aðrar vest­rænar þjóðir stilltar. Þjóð­verjar eru reiðu­búnir til að fara í 20% af lands­fram­leiðslu, ef þörf krefur, því þeir vita, að hvað sem skyn­sam­leg fyrir­bygging og vörn kann að kosta, verður hún ó­dýrari en endur­reisn, ef til hruns kemur.

Ein­hverjir kunna nú að spyrja, hvort höfundur sé orðinn rót­tækur vinstri maður. Bé­vítans kommi!? Nei, er svarið, höfundur er enn frjáls­lyndur og fram­sækinn Evrópu­sinni, en hann hefur lært, að án öryggis og vel­farnaðar starfs­manna, þrifst eða blómstrar ekkert fyrir­tæki. „Leben und leben las­sen“ segja Þjóð­verjar: „Að lifa og láta lifa“. Á því hefur höfundur trú.

Höfundur er al­þjóð­legur kaup­sýslu­maður og stjórn­mála­rýnir