Uppnám í Krónunni: Hóstuðu á fólk og tóku það upp – „Þetta er dauðans alvara“

„Þetta var frekar ógeðfelld sjón,“ segir kona sem var að versla í Krónunni á Granda um kvöldmatarleytið á sunnudag. Hópur ungra drengja, á að giska tólf eða þrettán ára, gerði sér að leik að hósta á fólk sem var inni í versluninni.

Fréttablaðið fjallar um málið á forsíðu blaðsins í dag. Þar er haft eftir Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, að upptökur hafi verið skoðaðar og þær sýni hvað hafi gerst. Málinu hafi verið vísað til lögreglu og almannavarna.

Konan lýsir því hvað gerðist í samtali við Fréttablaðið:

„Sá stærsti í hópnum gekk aftan að fólki, stoppaði eins nálægt því og hann komst og púaði svo eða hóstaði á það. Á meðan tók annar allt saman upp á síma.“ Hún segir að kona ein hafi reynt að stoppa piltana en þeir hafi ekkert slegið af hortugheitunum.

„Sá stóri nuddaði sér um augun, boraði í nefið og stakk fingrum upp í sig, gekk síðan að næstu hillu og strauk puttunum eftir vörunum þar. Þetta var frekar ógeðfelld sjón.“

Konan sem Fréttablaðið ræðir við segir að hún hafi fengið sinn skerf frá drengjunum. Einn þeirra hafi púað ofan í hálsmálið hjá henni. „Þegar ég sneri mér við stóð hann alveg upp við mig og starði ögrandi á mig. Þar sem ég sýndi engin viðbrögð elti hann mig eftir ganginum í tilraun til að ganga fram af mér.“

Gréta María segir að drengirnir séu ekki velkomnir í verslanir Krónunnar eftir þessa uppákomu á sunnudag. Hún segir að málið sé tekið mjög alvarlega. „Þetta er dauðans alvara en ekkert grín en það virðist vera að það séu margir að leika sér að hósta á annað fólk,“ segir hún.

Hér má lesa fréttina í heild sinni.