,,Upplifun sem var verri en í mötuneyti"

Lára G. Sigurðardóttir segir frá leiðinlegri upplifun sinni af því að borða á fínum veitingastað í borginni nýlega í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í morgun.

Hún lýsir kvöldinu sem lofar góðu framanaf. ,,Héldum við hjónin á rómaðan nýjan veitingastað hér í höfuðborginni. Tilefnið var reglulegt stefnumót. Tilhlökkunin magnaðist eftir að hafa skoðað matseðilinn á netinu. Við mættum á slaginu ásamt fleirum sem höfðu stillt sér prúðbúnir í röð. Eftir dágóða stund var röðin teymd inn í þéttsetinn sal," segir hún.

Bráðlega renna þó á parið tveir grímur en þau áttu í miklum erfiðleikum við að fá athygli þjónsins og þurftu að bíða lengi eftir mat og drykk. ,,Áður en ég náði að klára réttinn, sem líktist lítið myndinni á vefsíðunni, var diskurinn hrifsaður án þess að nokkur spyrði „hvernig smakkast?“"

Láru fannst þetta heldur betur leiðinleg upplifun. ,,Við álpuðumst heim lúpuleg með upplifun sem var verri en í mötuneyti. Líklega verri en gestir upplifðu á veitingastaðnum „Two Panda Deli“ í Pasadena, Kaliforníu, árið 1983 þegar vélmennin Tanbo R-1 og Tanbo R-2 þjónuðu til borðs," segir hún.

Þá segir hún að hér áður fyrr hafi verið meira lagt upp úr þjónustunni. Hún hafi sjálf verið þjónn og bendir á að orðið þjónn á ensku, ,,waiter", sé upprunið frá því að þjónar voru ávallt í biðstöðu til að þjóna gestum. Þá hafi einmitt verið lögð áhersla á greiðan aðgang gesta að þjónum.

Hún rifjar einnig upp atburð sem skeði fyrir nokkrum árum síðan þegar þjónn spurði hana hvort brenndi grænmetisborgarinn hennar dugði ekki til. ,,En sleppur þetta ekki?" spyr hann.

,,Mér þykir miður þegar veitingastaðir setja mest púður í brass og ljósakrónur, en láta matarupplifun mæta afgangi. Vissulega eru staðir sem standast væntingar, en þeir eru á undanhaldi. Maður verður kannski að sætta sig við að gamli tíminn sé horfinn og „sleppur þetta ekki?“-upplifunin sé tekin við," segir Lára að lokum.