Unnur segir ríkinu að gyrða sig í brók: „V-in sem allir óttast“

Unnur H. Jóhanns­dóttir, sem titlar sig sem blaða­maður, kennari og fötluð manneskja, skrifar harð­ort bréf til stjórn­valda í Morgun­blaðinu í dag sem ber heitið „V-in sem allir óttast“

„Þau smjúga eins og dala­læða inn í króka og kima sam­fé­lagsins og vekja ugg og ótta. Þau varða lífs­kjör flestra en bíta þó helst þá sem minnst hafa á milli handanna eins og lág­launa­fólk, ör­yrkja og ein­stæða for­eldra. En hver er váin sem vomar yfir og hefur gert í nokkurn tíma? Hún kom skjótt og sýnir ekki enn á sér neitt farar­snið,“ skrifar Unnur.

En hver eru þessi V? spyr Unnur síðan og svarar um hæl.

„Jú, verð­bólga, vextir og vísi­tölur hvers konar. Allt hefur þetta farið hækkandi og aukið á byrði al­mennings. Þar að auki hefur orðið al­gjör for­sendu­brestur síðan Seðla­bankinn lækkaði vexti svo þeir voru að­eins rétt fyrir ofan núllið. Bankarnir fylgdu í kjöl­farið og neyslu­dansinn hófst en minnst hjá lág­tekju­hópunum, enda engum peningum til að dreifa.“

„Margir freistuðust þó af gylli­boðum bankanna og súpa seyðið af því nú. En það er munur á að hafa 300 þúsund á mánuði eða þrjár milljónir. Lág­launa­fólk fast í verð­bólgu­netinu Lág­launa­fólk hefur nær ekkert öryggis­net þegar svona árar í sam­fé­laginu. At­vinnu­rek­endur kalla eftir á­byrgð launa­fólks en þá er verið að tala um samninga þeirra sem lægst hafa launin. Nú er baga­legt hversu sundruð verka­lýðs­hreyfingin virðist vera og það er mjög mikil­vægt að slíðra sverðin sem fyrst.“

„Annað gerir ekki neitt nema leggja vopnin í hendur at­vinnu­rek­endum og ríkis­valdinu sem oftar en ekki koma með ein­hverjum hætti að kjara­samningum. En einn er sá hópur sem ég hef ekki getið en það er fatlað fólk. Það getur ekki samið um launin sín, og ríkis­valdið, sem er þeirra „vinnu­veitandi“, skammtar þeim naumt úr hnefa, eins og þjóð veit. En ekki nóg með það, heldur smokra þeir sér fram hjá öllu sið­ferði, t.d. með því að því að túlka lög og reglu­gerðir eftir smekk og behag, ekki síst í kjara­málum.“

„Lang­flestir eru hlynntir at­vinnu­þátt­töku fatlaðs fólks. Það má segja að þá græði allir; fatlaðir fá laun sem bæta hag þeirra, ríkið fær meiri skatt­tekjur og sam­fé­lagið allt græðir, enda launa­vinna viður­kenning á fé­lags­legri stöðu, því miður fyrir fatlað fólk,“ skrifar Unnur.

„Ég ætla að taka eitt ofur­lítið dæmi; tré sem dæma má allan skóg ríkis­valdsins út frá. Árið 2013 voru sett tekju­við­mið varðandi vinnu ör­yrkja,“ skrifar Unnur.

„Ör­yrki mátti vinna fyrir 109.600 kr. án þess að líf­eyrir hans hans skertist. Nú, 13 árum síðar, er við­miðið ná­kvæm­lega það sama; 109.600 kr. Klókt eða ein­fald­lega heimsku­legt? Þetta er bara eitt dæmi sem sýnir að ríkið verður að gyrða sig í brók hvað við­kemur mál­efnum fatlaðs fólks. Vita­skuld er það heimsku­legt og þá er horft til þrí­hyrnings sem nefndur er hér að ofan. Þetta lága við­mið gerir að verkum að það borgar sig varla fyrir fatlaða að vinna þótt viljinn sé fyrir hendi. „Kjara­samningar“ ríkisins sjá til þess!“ skrifar Unnur að lokum.