Unnur Eggerts brjáluð: „Fokkist til að hætta að vera ömurleg annars drep ég ykkur“

Leik- og söngkonan Unnur Eggertsdóttir fer afar hörðum orðum yfir Matvælastofnun í kjölfar myndbands frá dýraverndunarsamtökunum AWF/TSP sem þau birtu um helgina af blóðtöku fylfullra hryssa á íslenskum sveitabæ.

Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að MAST sé með myndbandið til rannsóknar og líti það alvarlegum augum en óhætt er að segja að illa hafi verið farið með hryssurnar í myndbandinu. Viðkvæmir eru varaðir við því að bera það augum.

Miklar og heitar umræður hafa sprottið upp í kjölfar myndbandsbirtingarinnar og fréttaflutnings af því og nú hefur MAST svarað.

Unnur Eggerts er ein af þeim sem eys úr skálum reiði sinnar yfir svari MAST sem barst fréttastofu RÚV.

Í svari MAST segir meðal annars: „Við höfum metið það svo að það þurfi að hafa töluvert eftirlit með þessu. En þetta myndband sýnir að betur má ef duga skal í því.“

Óhætt er að segja að þessi setning hafi farið þveröfugt ofan í Unni sem tjáði sig á Twitter: „betur má? BETUR MÁ? Það á að fangelsa þetta helvítis lið, hvaða vettlingatök eru þetta? Af hverju fær fólk endalausa sénsa þegar kemur að dýraníð,“ segir Unnur.

Hún lætur þó ekki staðar numið þar heldur endar færsluna á þessum orðum: „Fokkist til að hætta að vera ömurleg annars drep ég ykkur.“

Undir þetta tekur Ingunn nokkur sem segir: „Eins og venjulega á okkar fína landi eru engar afleiðingar.“

Þá segir Tanja Ísfjörð, einn meðlima hins umdeilda aðgerðarhóps Öfga: „Myndi segja þér að taka chill pill en ég get það ekki ég er svo sammála. Fokk fólk sem níðist á dýrum.“