Ungur starfs­maður Nettó kom Össuri til bjargar – „Maður á að hrósa öllum sem gera góð­verk“

„Ég hef aldrei lent í þessu áður og þess vegna var ég mjög undrandi en samt mjög glaður yfir því hversu góð­hjartaður þessi ungi starfs­maður var í raun og veru.“

Þetta segir maður að nafni Össur í færslu sem birtist í Face­book-hópnum Já­kvæðasta grúbban á Ís­landi. Í hópnum deila með­limir já­kvæðum sögum úr hvers­dags­lífinu. Segja má að þörfin fyrir já­kvæðar og upp­byggi­legar fréttir hafi sjaldan verið meiri en ein­mitt nú á tímum CO­VID-19.

Í frá­sögn sinni segir Össur sagan hafi gerst fyrir um ári en þá bjó hann ná­lægt RÚV við Efsta­leiti.

„Ég gekk oft mér til heilsu­bótar í nokkur skipti niður í Elliða­ár­dal. Ég hafði með­ferðis bak­poka og þegar ég var á heim­leið datt mér í hug að koma við í Nettó í Mjódd og kaupa mér appel­sínur á 50% af­slætti sem og ég gerði,“ segir Össur en úr varð að hann greip með sér um það bil 15 kíló af appel­sínum.

„En þegar kom að því að greiða vöruna, var ég peninga- og greiðslu­korta­laus, ég ætlaði að greiða vöruna með banka­appinu, en það virkaði ekki og hefur ekki virkað hingað til,“ segir Össur en þarna voru góð ráð dýr. Hann spurði ungan starfs­mann verslunarinnar hvort hann gæti að­stoðað hann. Úr varð að starfs­maðurinn ungi greiddi fyrir vöruna með eigin banka­appi. Össur milli­færði svo á hann um leið úr síma­appinu sínu.

„Í þetta skipti bjargaði starfs­maður í Nettó mér fyrir horn. Ég hef aldrei lent í þessu áður og þess vegna var ég mjög undrandi en samt mjög glaður yfir því hversu góð­hjartaður þessi ungi starfs­maður var í raun og veru. Ég þakkaði honum vel fyrir greiðan og kom einnig boðum til hans í gegnum yfir­menn hans með þakk­læti fyrir þennan ó­vænta glaðning og hjálp­semi. Maður á að hrósa öllum sem gera góð­verk gagn­vart náunganum, það skilar sér marg­falt til baka.“