Um­hverfis­ráð­herra ekki grænn, heldur rauður!

Í septem­ber 2019 ritaði Fagráð um vel­ferð dýra - en yfir­dýra­læknir er for­maður ráðsins - Um­hverfis­stofnun bréf, varðandi fram­tíð hrein­dýra­veiða, og beindi þeim til­mælum til stofnunarinnar og þar með til um­hverfis­ráð­herra, „að kýr verði ekki skotnar frá kálfum yngri en þriggja mánaða“.

Fram til þessa hafði um­hverfis­ráð­herra leyft veiðar á hrein­dýrakúm frá 1. júlí, en þá eru yngstu kálfar rétt 8 vikna og standa ekki meira en svo í fæturna, eins og mörgum er kunnugt.

Flestum - alla vega öllum dýra- og náttúru­vinum - of­býður þetta, og hefði mátt ætla, að um­hverfis­ráð­herra væri í þeim hópi, enda nú vara­for­maður Vinstri grænna, sem auð­vitað þykjast vera græn, þó að lítið hafi farið fyrir því, þrátt fyrir stjórnar­setu og -for­ustu nú í tvö og hálft ár.

Þann 19. febrúar sl. birtist svo á vef­síðu um­hverfis­ráðu­neytisins aug­lýsing um hrein­dýra­veiðar árið 2020.

Þessi aug­lýsing sýnir, því miður, að veiði­menn hafa haft betri að­gang að um­hverfis­ráð­herra, en Fagráð um vel­ferð dýra og yfir­dýra­læknir, eða þá, að sam­kennd ráð­herra með þeim og þeirra veiði­gleði er meiri, en sam­kennd hans með sak­lausum og varnar­lausum dýrum, hverra vel­ferð honum er þó skylt að bera fyrir brjósti.

Fram hefur komið, að um­hverfis­ráð­herra kann að meta jarð­veginn og landið, sem í sjálfu sér er af hinu góða, svo langt sem það nær, en skilning virðist skorta hjá honum fyrir því, að landið og líf­ríkið á því mynda eina heild.

Aug­ljóst er af þessari af­greiðslu hrein­dýra­veiða 2020, þar sem veiði­tímar eru ó­breyttir, og hrein­dýr­skýr verða á­fram skotnar með og frá 8 vikna gömlum kálfum þeirra, að dýra­vernd og dýra­vel­ferð veldur um­hverfis-ráð­herra ekki vöku­nóttum.

Um­hverfis­ráð­herra fylgir veiði­mönnum í einu og öllu í á­kvörðun sinni um hrein­dýra­veiðar 2020, nema, hvað hann reynir sýni­lega, að rétt­læta lítil­lega gjörðir sínar með því, að „hvetja veiði­menn ein­dregið“ til þess að veita kúm með kálfa grið í 2 vikur, með því að ein­beita þá drápinu að geldum kúm.

Góðir og virkir stjórnunar­hættir það, til manna, sem hafa engar til­finningar fyrir dýrunum - kálfum eða kúm -, en, ef svo væri, lægju þeir ekki í því, að murka úr þeim lífið, að gamni sínu.

Í ágúst í fyrra birtist grein í Frétta­blaðinu með fyrir­sögninni „Rómantískt að veiða saman“. Gekk hún út á dráp hjóna úr Reykja­vík á tveimur hrein­dýrum, sem þau felldu saman, sér til skemmtunar og gleði og greini­lega til að auka rómantíkina í hjóna­bandinu.

Ætli svona veiði­menn, sem líka fara dýrum dómum alla leið til Afríku til þess að murka líf­tóruna úr sak­lausum villtum dýrum þar, sér til lífs­fyllingar og gleði­auka, og aðrir, sem eru skyldir þeim í til­finninga­lífi sínu og sama sinnis, geri mikið með „ein­dregna hvatningu“ um­hverfis­ráð­herra?

Það mætti líkja þessu við það, að öku­menn væru „ein­dregið hvattir“ til að aka á hóf­legum hraða í þétt­býli, í stað þess að setja skýrar reglur um hraða þar, sem auð­vitað er gert.

Því miður liggur það fyrir, eftir að um­hverfis­ráð­herra hefur gegnt starfi sínu í tvö og hálft ár, að hvergi er hægt að sjá merki þess, að hann hafir gert eitt eða neitt fyrir vernd eða vel­ferð dýra í landinu. Á þó slíkt að vera á stefnu­skrá VG, en það virðist grafið og gleymt á­samt með hvala­vernd og ýmsu öðru, sem flokkurinn segist standa fyrir.

Eitt er það, að um­hverfis­ráð­herra hunzi af­stöðu og til­mæli okkar Jarðar­vina og annarra náttúru­verndar­sinna og virði vernd dýranna og bar­áttu okkar fyrir vel­ferð þeirra að vettugi, annað og verra er, að hann skulir taka ó­heftan veið­vilja veiði­manna - líka innan Um­hverfis­stofnunar, en þar eru þeir enn með rík ítök, það sama gildir um Nátúru­stofu Austur­lands, sem er mið­stöð fjár­flæðis af drápi dýranna, í allar áttir austur þar, sem nemur hundruð milljóna á ári – fram yfir til­mæli Fagráðs um vel­ferð dýra. Fyrir undir­rituðum er þetta al­var­legt, ill­skiljan­legt og ó­við­unandi.

Það er öllum dýra­vinum mikil von­brigði, hversu hug­laus og dáð­laus um­hverfis­ráð­herra hefur reynzt í dýra­verndar­málum, þrátt fyrir stórar skyldur og yfir­lýsta dýra­verndar­stefnu VG. Hvernig skyldu kjós­endum VG líka þetta? Skyldi for­maðurinn vera stoltur? Það er illt, að bregðast öðrum, en kannske enn verra að bregðast sjálfum sér.

Höfundur er stofnandi og for­maður Jarðar­vina