Um þetta snýst ósætti Sólrúnar og Camillu: „Hún er að bíða eftir afsökunarbeiðni“

Á meðan fjölmiðlar landsins virðast uppteknir af smámálum eins og forsetaskiptum í Bandaríkjunum þá er það hins vegar svo að þjóðin bíður með öndina í hálsunum, eftir nýjum tíðindum af meintum vinslitum tveggja af vinsælustu Instagram-stjarna landsins, Sólrúnu Diego og Camillu Rut.

En til að skilja málið verðum við að fara yfir atburðarás síðustu daga og sérstaklega gærdagsins.

Orðrómur um meint vinslit stjarnanna fór á flug á dögunum þegar glöggir fylgjendur fóru að undrast það að dívurnar voru hættar að minnast hvor á aðra í færslum auk þess sem að gagnkvæm stöðluð læk gufuðu upp. Það var afar óvenjulegt enda hafði ekki liðið sá dagur án þess að hlýjar hefðu ekki flogið milli.

Hringbraut fjallaði um áhyggjur fylgjenda fyrir helgi en engan hefði órað fyrir því hvað skeði næst.

Draumaþrenna í báðum afmælum

Sólrún fagnaði þrítugsafmæli sínu í gær með einskonar draumaþrennu áhrifavaldsins; kampavíni, nýjum veitingastað sem þarf að auglýsa sig og heimsókn í spa.

Lúxusnum, sem var að sjálfsögðu gerð góð skil á Instagram-reikningi Sólrúnar en æstir aðdáendur gátu líka fylgst með á reikningum annarra áhrifavalda. Fór þar fremst í flokki Fendi-fljóðið Lína Birgitta sem lýsti upp hjörtu aðdáenda með myndum af dýrðinni.

Aðdáendur stjarnanna voru fljótir að spyrja sig hinnar ágengu spurningar þegar myndir úr afmæli Sólrúnar fóru að birtast: „Hvar er Camilla Rut“?

Búast má við að drjúgur hluti þjóðarinnar hafi þó þotið yfir á reikning Camillu og orðið verulega brugðið þegar í ljós kom að hún var í 31 árs afmælisveislu áhrifavaldsins TinnuBkr (sem fékk sér líka kampavín, fór á nýjan veitingastað og í spa).

U-beygja frá fyrra ári

Hér er mikilvægt að spóla enn lengra tilbaka og átta sig á alvarleika málsins. Í fyrra kaus nefnilega Camilla Rut frekar að fagna 29 ára afmæli Sólrúnar Diego en 30 ára stórafmælis TinnuBkr. Að það hafi snúist við er bara eiginlega of mikið fyrir þá sem fylgt hafa drottningunum um árabil.

Hringbraut gerði þessum ógnvekjandi tíðindum strax skil og minni miðlar í heimi slúðurs og glamúrs fylgdu í kjölfarið daginn eftir.

Engin gat þó undirbúið aðdáendur fyrir það sem koma skyldi. Sólrún opnaði þá afmæliskortið frá vinkonum sínum, sem fylgdi veglegri gjöf, og þá blasti við fagurlega ritað nafn Camillu í kortinu.

Eins og má sjá tók Camilla þátt í gjöfinni til vinkonu sinnar

Fylgjendur ærðust af gleði – mögulega var allt á misskilningi byggt. Kannski ætlaði bara Camilla fyrst að kíkja til Tinnu og klára kvöldið hjá Sólrúnu.

Aðdáendur höndluðu varla gleðitíðindin

En Camilla kom aldrei og enn verra var síðan þetta skjáskot um vináttuna sem Sólrúnu birti.

Aftur fór samfélag aðdáenda á hvolf. Hvað þýddi þetta?

Ef síðan einhver efaðist um hvor vinkonan það er sem er farinn að miðla sáttum þá var þeim vafa snarlega eytt þegar Sólrún birti glæsilega afmælismynd af sér á Instagram. Camilla Rut skrifaði í hvelli athugasemd þar sem hún hrósaði gömlu vinkonu sinni. Hún steig síðan fram í viðtali við Vísi og sagði umræðuna komna út fyrir öll velsæmismörk. Hún og Sólrún væru enn að followa hvora aðra og hún hefði einfaldlega ekki getað verið á tveimur stöðum á sama tíma.

Hvað sem öðru líður þá er ljóst að þó að Sólrún sé til í Frans þá virðist hún ekki vera til í þennan dans. Hún hefur hvorki kommentað á móti til Camillu, lækað neitt né bara gert nokkuð til þess að slá hinn þráláta orðróm um vinslit útaf borðinu.

Af hverju varð ósættið?

Öruggar heimildir Hringbrautar herma að á seinni hluta síðasta árs hafi Camillla og Sólrún fengið boð í teiti sem þær ætluðu að fara í saman. Ákveðið var að Camilla myndi sækja Sólrúnu en þegar hún mætti heim til hennar þurfti hún að bíða eftir vinkonu sinni dágóða stund. Að endingu leiddist henni þófið og sendi skilaboð á Sólrúnu um að hún væri farin í partýið og að þær myndu bara hittast þar. Sólrún tók þessi óstinnt upp og síðan hafa stjörnurnar ekki talast við.

Hvað þýðir þetta fyrir vináttu þeirra?

Heimildir Hringbrautar telja að tíminn lækni öll sár og að atvikið hafi ekki verið alvarlegra en svo að sættir séu innan seilingar. „Hún er að bíða eftir afsökunarbeiðni,“ segir heimildarmaður og á þar við Camillu sem er á þeirri skoðun að Sólrún hafi brugðist of harkalega við. Önnur hvor muni þó eflaust gefa eftir að lokum og ljóst er að aðdáendur þrá bara sættir milli þessara tveggja turna í íslenskri áhrifavaldasenu.