Um 12 milljónir af launum Guðna og öll launa­hækkunin frá 2016 farið í góð­gerðar­mál

Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands hefur gefið launa­hækkun sína í hverjum mánuði frá nóvember 2016. Er sú upp­hæð komin yfir tíu milljónir.

Þegar Kjara­ráð á­kvað að hækka laun æðstu ráða­manna þjóðarinnar í nóvember 2016 vakti það mikla reiði í sam­fé­laginu. Laun þing­manna hækkuðu um tæp­lega 390 þúsund og ráð­herrar um 570 þúsund. For­seti Ís­lands hækkaði um hálfa milljón. Guðni sagði fljót­lega eftir hækkunina:

„Ég bað ekki um þessa kaup­hækkun og vissi ekki af henni. Ég þarf ekki þessa kaup­hækkun.“

Þá sagði Guðni að kaup­hækkunin myndi ekki renna í hans vasa. Ríkis­út­varpið greindi frá því í desember 2017 að Guðni hefði gefið tæp­lega 4 milljónir af launum sínum í góð­gerðar­mál eða um 300 þúsund mánaðar­lega. Ný­lega greindi Kjarninn frá því að Guðni hafi sent erindi til fjár­­mála­ráðu­neytisins þar sem hann óskaði eftir að laun hans yrðu fryst til 2021 en þau áttu að hækka um tæpar 200 þúsund krónur. Við því var orðið.

Í ljósi há­værra um­ræðna um launa­hækkanir ráða­manna óskaði Frétta­blaðið og Hring­braut eftir að vita nú tveimur og hálfu ári síðar hvort Guðni hafi enn þann hátt á að styrkja góð mál­efni um 300 þúsund um hver mánaða­mót. Það fyrir­komu­lag er ó­breytt. Í svari frá for­seta­ritara segir m.a:

„Þegar kjara­ráð heitið hækkaði laun for­seta um­tals­vert haustið 2016 hafði for­seti enga vit­neskju um að það stæði til. Hann lét þau orð falla þá að hann hefði ekki beðið um þessa hækkun, þyrfti ekki þessa hækkun og mundi því láta hana renna annað. Þetta er ó­breytt.“

Ekki kemur fram hvaða sam­tök njóta gjaf­mildi for­setans. En sé tekið mið af því að Guðni hafi í desember 2017 verið búinn að gefa tæpar fjórar milljónir í góð­gerðar­mál, þá ætti sú upp­hæð að vera rúmar 12 milljónir króna.