Úlfúð á rosalega heitum kennarafundi: „Mér líður bara eins og mér sé nauðgað“

Í nýjum dómi Landsréttar er rosalegum kennarafundi lýst, sem varð til þess að kennari fékk áminningu. Ári síðar skrifaði kennarinn grein sem birtist í fjölmiðli og virðist það hafa verið síðasta stráið, en kennarinn var rekinn.

Fréttablaðið fjallar um málið, en um er að ræða fund í grunnskóla í Bláskógabyggð árið 2015. Fram kemur að skólanum hafi verið gert að greiða kennaranum milljón krónur þar sem uppsögnin var ekki lögmæt.

Kennarinn sem um ræðir var ekki sáttur með skólastjórann og sakaði hann um einræðistilburði, og þá er haft eftir henni: „Mér líður bara eins og mér sé nauðgað.“

Annar kennari sagði það þungt í árina tekið, en bætti þó við: „nauðgun er ofbeldisglæpur og okkur leið eins og við værum beitt ofbeldi.“

Skólasjórinn sakaði konuna um að hafa gengið langt á fundinum. Hún hafi klætt sig úr lopapeysu sinni og sagst þurfa að „fara í glímugallann“.

Meira en ári síðar skrifaði konan síðan grein í staðarblaðið þar sem hún talaði illa um stjórnarhætti skólastjórans.

„Ég mun éta gras mér til lífsviðurværis í framtíðinni frekar en að vinna á vinnustað eins og þeim sem [skólastjórinn] stjórnar. Er ekki tímabært að þoku yfirhylmingar og þöggunar fari að létta hér?“ spurði hún til að mynda.

Hægt er að lesa nánar um málið í Fréttablaðinu.