Úlfar ósáttur við Katrínu: „Beinlínis kjánalegt“

„Þetta er auðvitað það allra vandræðalegasta á fésinu í dag... beinlínis kjánalegt,“ segir Úlfar Hauksson stjórnmálafræðingur á Facebook-síðu sinni.

Úlfar deildi þar frétt RÚV þess efnis að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði blandað sér í umræðuna um evrópsku Ofurdeildina í knattspyrnu sem miklar deilur hafa verið um. Katrín er dyggur stuðningsmaður Liverpool og sagði hún á Twitter í gær að hún gæti ekki stutt áform Liverpool um að ganga til liðs við deildina.

Þess má geta að forsvarsmenn Liverpool tilkynntu í gærkvöldi að þeir hefðu ákveðið að draga lið sitt úr keppni eins og hin ensku liðin sem voru á meðal stofnliða deildarinnar.

Katrín birti tíst á ensku í gær þar sem hún lýsti andstöðu sinni við áformin.

„Að­dá­endur eru andi og hjarta hverrar í­þróttar, þessi í­þrótt er ekkert án þeirra,“ skrifaði Katrín og bætti við: „Þegar græðgi og kapítal­ismi taka al­farið yfir, glatast hjarta í­þróttarinnar. Ég mun ekki fylgja Liverpool á þessari veg­ferð, eig­endurnir þurfa að ganga þetta einir.“

Úlfar, sem er fyrrverandi aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er ekki hrifinn af þessum afskiptum Katrínar.

„Forsætisráðherra Íslands að tjá sig um áform evrópskra fótboltaliða og talar um gegndarlausa græðgi og kapítalisma.... vinstri sósíalistinn Katrín sem unir sér vel í faðmi íslenskra kapítalista þar sem græðgi er hið daglega brauð... og engir molar hnjóta af þeirra borð.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Katrín er gagnrýnd fyrir að opinbera stuðning sinn við Liverpool. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýndi Katrínu harðlega í fyrrasumar fyrir að birta mynd af sér brosandi með Liverpool-húfu á höfði rétt eftir að liðið hafði tryggt sér Englandsmeistaratitilinn. Örfáum klukkustundum áður höfðu slökkviliðsmenn barist við eldsvoði á Bræðraborgarstíg sem kostaði þrjá einstaklinga lífið.