Ugla Stefanía: Mín brjóst verða aldrei „matarpokar“

Sam­fé­lags­miðlar nötra eftir á­kvörðun Sky Lagoon um að vísa Diljá Sigurðar­dóttur upp úr lóninu fyrir að vera ber að ofan í lóninu. Miklar umræður hafa skapast og vilja flestir í umræðunni meina að ákvörðun Sky Lagoon sé mismunun eftir kynjum.

Þá hefur málið vakið upp almennari umræðu um brjóst. Ugla Stefanía Jónsdóttir, formaður Trans Íslands, vill að hætt verði að tala um brjóst sem „matarpoka“:

„ Það eru ekki allar konur sem eignast börn sem hafa börn á brjósti, það eru konur sem eignast aldrei börn, hvort sem það er vegna þess að þær hafa ekki áhuga á því eða geta það einfaldlega ekki, og svo eru sumar konur með brjóst sem geta ekki framleitt brjóstamjólk. Mín brjóst verða til dæmis aldrei matarpokar,“ segir hún á Facebook.

„Brjóst eru bara brjóst og það á ekkert að vera meira tiltökumál að kona fari berbrjósta í sund frekar en karl fari ber að ofan. Við getum alveg barist fyrir því að við höfum all sama rétt til að vera ber að ofan í sundi án þess að nota útilokandi og smættandi orðalag sem gerir ráð fyrir að allar konur eignist börn og séu matarpokar fyrir börnin sín.“