Tvö þeirra sem létust voru í Eflingu – Sól­veig: „Ég er harmi lostin“

Tvö þeirra sem létust í brunanum við Bræðra­borgar­stíg í síðustu voru fé­lags­menn í Eflingu. Fé­lagið sendir í dag dýpstu sam­úðar­kveðjur til að­stand­enda þeirra sem létust og bata­óskir til þeirra sem urðu fyrir tjóni og á­falli vegna brunans.

„Stað­fest er að tvö af þeim þremur sem létust í brunanum voru fé­lags­menn í Eflingu, verka­fólk af er­lendum upp­runa sem komu hingað til lands til að vinna verka­manna­störf. Hingað komin lentu þau í gildru ein­stak­lings sem leigði þeim hættu­legt hús­næði í ó­boð­legu um­hverfi,“ segir í til­kynningu sem Efling sendi frá sér.

Bent er á að niður­stöðu úr rann­sókn lög­reglu sé beðið, en Efling geti ekki annað en sett brunann í sam­hengi við þá með­ferð sem að­flutt vinnu­afl verður fyrir á Ís­landi. „Enginn skortur hefur verið á á­bendingum um lög­leysu og van­rækslu þegar kemur að stöðu er­lends verka­fólks á Ís­landi. Á það bæði við réttindi á vinnu­markaði og hús­næðisað­búnað,“ segir í til­kynningunni en þar er bent á um­fjallanir fjöl­miðla, meðal annars í Stundinni um þessa til­teknu eign á Bræðra­borgar­stíg.

„Efling setti ó­eðli­legt sam­spil húsa­leigu­kjara og ráðningar­sam­bands á dag­skrá í kjara­við­ræðum við Sam­tök at­vinnu­lífsins veturinn 2018-2019. Auk þess var sett fram skýr krafa um stór­hertar refsi- og sektar­heimildir gegn kjara­samnings­brotum. Lendingin varð sú að ríkis­stjórnin setti fram mörg lof­orð um úr­bætur á vinnu­markaðs­lög­gjöfinni og hert viður­lög,“ en í til­kynningunni segir að efndir á þessum lof­orðum hafi enn ekki sést og sam­kvæmt upp­lýsingum Eflingar frá ASÍ standa Sam­tök at­vinnu­lífsins ein­örð gegn þeim.

Efling krefst þess að fé­lags­mála­ráð­herra og ríkis­stjórnin efni lof­orð um hertar að­gerðir gegn brota­starf­semi á vinnu­markaði, þar með talið lof­orð um sektar­heimildir vegna kjara­samnings­brota og önnur viður­lög. Þá krefst Efling þess að allar stofnanir hins opin­bera sem fara með eftir­lit varðandi öryggi og heilsu borgaranna sýni til­ætlaða ár­vekni og taki eðli­legt frum­kvæði að í­hlutun þegar við á, en sýni ekki af sér van­rækslu og sinnu­leysi þegar lág­launa­fólk eða fólk af er­lendum upp­runa á í hlut.

Loks krefst Efling þess að borin sé eðli­leg virðing fyrir lífi, heilsu og öryggi alls verka­fólks og að bundinn verði endir á kerfis­bundna mis­munun gegn verka­fólki af er­lendum upp­runa.

Þá minnir Efling á að öll þjónusta fé­lagsins standi fórnar­lömbum brunans sem eru í Eflingu opin. Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, segir í til­kynningunni:

„Ég er harmi lostin. Í starfi mínu síðustu tvö ár hef ég á hverjum einasta degi heyrt um launa­þjófnað, arð­rán, mis­beitingu, rugl og ógeð. „Besti vinnu­markaður í heimi“ er ekkert nema mar­tröð fyrir mörg af okkar að­fluttu fé­lögum. Ég krefst þess að við hættum að þola skeytingar­leysi þeirra sem völdin hafa yfir lífs­skil­yrðum fé­laga okkar sem þurfa mest af öllum á því að gengið verði í að bæta þeirra kjör og að­stæður. Hinn hræði­legi harm­leikur verður að hafa raun­veru­legar af­leiðingar. Ég hef engin orð til að lýsa Ís­landi ef að það gerist ekki,“ sagði Sól­veig Anna Jóns­dóttir for­maður Eflingar.