Tvö smit utan sóttkvíar um helgina og nokkrir tugir sendir í sóttkví

Tveir einstaklingar hafa greinst með COVID-19 utan sóttkvíar um helgina og tengjast þeir báðir óbeint einstaklingi sem kom frá útlöndum og greindist í seinni skimun þann 4. mars síðastliðinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Boðað hefur verið til upplýsingafundar klukkan 17 í dag þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson fara yfir stöðu mála.

Í tilkynningunni segir að smitrakningarteymi Almannavarna og sóttvarnalæknis hafi unnið að rakningu og boðað fólk í skimun í tengslum við þessi tvö smit sem greindust utan sóttkvíar. Búið er að raðgreina upprunalega smitið og eitt afleitt smit og bæði reyndust með hið svokallaða breska afbrigði. Fram kemur að Íslensk Erfðagreining vinni nú að raðgreiningu fleiri sýna. Líklega munu nokkrir tugir manna þurfa að fara í sóttkví vegna ofangreindra smita.

Eins og greint var frá í dag tengist annað þessara smita dag- og göngudeild Landspítala og er smitrakning og sýnataka í gangi þar. Hluta deildarinnar hefur verið lokað en að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að smitið muni hafa frekari áhrif á starfsemi spítalans, eins og staðan er. Ríflega þrjátíu einstaklingar, sjúklingar og starfsmenn eru komnir í sóttkví í tengslum við smitið.

Þá kemur fram að smitrakning nái einnig til tónleika í Hörpu 5. mars sem hófust klukkan 20:00 en þar eru einstaklingar skráðir í sæti sem auðveldar smitrakningu. Um tíu þeirra sem næst sátu einstaklingnum eru komnir í sóttkví.

„Á morgun, mánudag 8. mars, er fyrirhuguð skimun á öllum tónleikagestum. Þeir sem ætla að mæta í skimun í tengslum við tónleikana verða að bóka tíma í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is og velja þar „Tónleikagestur í Hörpu 5. mars 2021.“ Þeir sem skrá sig fá sent strikamerki og tímasetningu fyrir skimun. Allir tónleikagestir eru eindregið hvattir til að mæta í skimun og jafnframt að huga vel að persónulegum smitvörnum og að takmarka samskipti við aðra þangað til að niðurstaða úr skimun liggur fyrir,“ segir í tilkynningunni.