Tveggja ára mar­tröð á enda: Létt þegar hún heyrði að maðurinn var á lífi

Héraðs­dómur Suður­lands hefur sýknað konu sem var á­kærð fyrir að aka bif­reið sinni á mann sem var að ganga yfir gang­braut á Sel­fossi í febrúar 2019. Slysið varð undir kvöld laugar­daginn 9. febrúar 2019 á gatna­mótum Engja­vegar og Eyrar­vegar.

Konan var á­kærð fyrir hegningar- og um­ferðar­laga­brot með því að sýna ekki nægi­lega að­gæslu og var­úð við aksturinn og auk þess virða ekki gang­brautar­rétt.

Maðurinn slasaðist þó nokkuð í slysinu. Við á­keyrsluna kastaðist hann upp á og aftur með bif­reiðinni og féll síðan í götuna með þeim af­leiðingum að hann hlaut herða­blaðs­brot, brot á neðri enda sköflungs, rif­brot og mörg brot á fót­legg. Var maðurinn fluttur með sjúkra­bíl til Reykja­víkur og út­skrifaðist hann 10 dögum síðar.

Konan neitaði sök í málinu og sagði fyrir dómi að hún hafi verið á hæfi­legum hraða með at­hyglina við aksturinn. Hún hafi ekki séð manninn fyrr en einni sjón­hendingu áður en hann lenti á bif­reiðinni.

Fyrir dómi sagði konan að henni verið ó­skap­lega brugðið og óttast að maðurinn væri látinn. Hún hafi snar­hemlað um leið og hún hafi orðið mannsins vör. Henni hafi létt þegar hún heyrði að maðurinn væri á lífi en engu að síður orðið fyrir miklu á­falli.

Um­ræddan dag var farið að rökkva og var maðurinn sem varð fyrir bílnum dökk­klæddur og ekki með endur­skins­merki. Sagðist hann fyrir dómi ekki geta sagt til um hvort hann hafi litið til hliðar áður en hann gekk út á ak­brautina. Nokkrir urðu vitni að slysinu og sagðist ekkert þeirra geta lýst því að maðurinn hafi litið til hliðar.

Meðal vitna í málinu var starfs­maður Vega­gerðarinnar sem sagði að um­ferðar­merkingum hefði verið breytt á vett­vangi eftir á­bendingu frá konunni eftir slysið. Þannig hafi svo­kallaðir gát­skildir verið teknir niður og boð­merki lækkuð.

„Að öllu framan­greindu virtu er ekki hafið yfir skyn­sam­legan vafa að á­kærða hafi gerst sek um þá hátt­semi sem henni er gefin að sök í á­kæru og nær það hvort tveggja til sakar­gifta um brot á um­ferðar­lögum sem og til líkams­meiðinga af gá­leysi. Er því rétt að sýkna hana af öllum kröfum á­kæru­valds í málinu,“ segir í niður­stöðu dómsins.

Sakar­kostnaður málsins, sam­tals rúm­lega 1,1 milljón króna, greiðist úr ríkis­sjóði.