Tvær þjóðir í landinu: Opinberir starfsmenn og hinir

5. október 2020
19:51
Fréttir & pistlar

Oft er talað um að á Íslandi búi tvær þjóðir. Annars vegar landsbyggðarfólk og hins vegar þeir sem búa í þéttbýli. Jafnan er því þá haldið fram að íbúar þéttbýlis fái allt upp í hendurnar en dreifbýlið búi við lakari þjónustu og verri kjör á mörgum sviðum. Það er svo notað sem réttlæting fyrir því að atkvæðisréttur þeirra sem eiga heima á höfuðborgarsvæðinu er allt að helmingi minni en þéttbýlisfólksins. Mörgum þykir það óþolandi að heilagur atkvæðisréttur fólks sé þannig notaður sem skiptimynnt til að jafna stöðu fólks milli landshluta. Þá er einnig oft rætt um að í landinu búi tvær þjóðir – fátækir og betur stæðir.

Í þeim vanda sem veiran skæða veldur þjóðinni er nú til viðbótar farið að tala um að í landinu búi tvær þjóðir: Opinberir starfsmenn sem eiga ekki á hættu að missa vinnuna og hinir sem starfa úti í atvinnulífinu þar sem atvinnuleysi gerir nú heldur betur vart við sig. Íslenskur vinnumarkaður telur um 200 þúsund einstaklinga. Nær helmingur þeirra eru opinberir starfsmenn hjá ríki, sveitarfélögum eða fyrirtækjum í opinberri eigu. Talað er um að fjöldi atvinnulausra á Íslandi nálgist nú 20 þúsund. Þeir koma nær allir út einkageiranum því opinberir starfsmenn eru ekki að missa vinnuna, sem betur fer. Engir tilburðir eru sýndir af hálfu stjórnvalda til að spara í opinberum rekstri. Ekkert aðhald er í rekstri hins opinbera. Þar er starfsfólki frekar fjölgað og sumir stjórnmálaflokkar kalla eftir því að auka fjárlagahallann með því að fjölga opinberum starfsmönnum enn frekar! Það eru einkum þingmenn Samfylkingar sem tala þannig. Þeim virðist ekki þykja nóg að fjárlagahalli næsta árs sé áætlaður 265 milljarðar króna vegna aukinna útgjalda sem rekja má til veiruvandans og lækkaðra tekna ríkissjóðs vegna aukins atvinnuleysis og minni umsvifa fyrirtækja í einkageiranum. Þeir segja grímulaust að það eigi að fjölga opinberum störfum til muna og hækka atvinnuleysisbætur sem þegar stefna í að kosta ríkissjóð um 100 milljarða króna á ári.

Logi Einarsson, Ágúst Ólafur og Oddný Harðardóttir virðast halda að peningar vaxi á trjánum. Mikilvægt er að einhverjir taki að sér að útskýra fyrir þeim og öðrum að verðmætin verða til úti í atvinnulífinu, í fyrirtækjunum, en ekki á Alþingi eða í ráðuneytum. Á undanförnum árum hefur verið góður hagvöxtur hér á landi sem stafar af góðum gangi víða í atvinnulífinu, einkum í ferðaþjónustu, iðnaði og sjávarútvegi. Mikil atvinnusköpun og góður gangur atvinnufyrirtækja hefur skilað ríki og sveitarfélögum miklum tekjum sem hafa leitt til þess að hið opinbera hefur haft burði til að vaxa að umfangi og þjónustu við landsmenn. Fjármálaráðherra hefur meðal annars bent á þetta, síðast í sjónvarpsþætti um helgina. Hann lagði einnig áherslu á að nú stefndi í samdrátt í þjóðartekjum vegna versnandi gengis atvinnulífsins og atvinnuleysis. Það sýndi að afkoma þjóðarinnar ræðst í atvinnulífinu.

Mikilvægt er að fólk átti sig á því að þeir 20.000 sem hafa misst atvinnuna á Íslandi koma nær allir út atvinnulífinu en ekki frá hinu opinbera. Það bendir til þess að jafnvel fimmti hver starfsmaður í einkageiranum hafi misst vinnuna. Á meðan geta opinberir starfsmenn haldið sínu striki öryggir um stöðu sína og framtíð. Út af fyrir sig gleðilegt vegna þessa fólks. En þetta gengur ekki upp þegar til lengri tíma er litið. Það þarf jafnvægi milli tekjuöflunar og eyðslu. Ef ójafnvægi er látið viðgangst of lengi þá fer það illa og endar með skelfingu.

Svo virðist að stór hópur stjórnmálamanna skilji þetta ekki eða láti sér fátt um finnast – enda eru þeir allir opinberir starfsmenn. Forysta atvinnulífsins og þeir stjórnmálamenn sem hafa reynslu og skilning á þessu ástandi þurfa að taka að sér að útskýra þessar staðreyndir fyrir þeim sem halda að unnt sé að aka leiðina áfram fram af brúninni. Annars fer illa.