Tvær flugur í einu höggi

Ekki tók það Hrein Loftsson nema tvær vikur að átta sig á því að það hefðu verið mistök af hans hálfu að þiggja boð Jóns Gunnarssonar um áframhaldandi starf sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra. Hreinn er skynsamur maður og skjótur til ákvarðanatöku.

Eftir situr Jón með einn aðstoðarmann, Brynjar Níelsson fyrrverandi samstarfsmann sinn á Alþingi, en Brynjar féll sem kunnugt er af þingi í haust. Jón segir þó ekki loku fyrir það skotið að Hreinn taki að sér einstök verkefni fyrir ráðherra og ráðuneytið. Engu að síður telur Jón líklegt að hann ráði annan aðstoðarmann í fullt starf og fullnýti þar með heimild sína til að ráða tvo aðstoðarmenn.

Og ekki þarf Jón að leita langt yfir skammt. Svo vill til að annar fallinn þingmaður er á lausu og er sá hvorki meira né minna en fyrrverandi dómsmálaráðherra. Sigríður Andersen, sem starfaði í lögmennsku áður en hún var kosin á þing, eins og Brynjar, er vitaskuld alveg kjörin í starf aðstoðarmanns. Eitthvað verður hún að fá að gera. Hún er hokin af reynslu úr dómsmálaráðuneytinu og ætti að vera fengur fyrir ólöglærðan ráðherrann að fá hana til aðstoðar.

Þá myndi ráðning Sigríðar tryggja Jóni Gunnarssyni fullkomið kynjajafnrétti meðal aðstoðarmanna sinna. Þannig slægi hann tvær flugur í einu höggi.

- Ólafur Arnarson