Truflað gott fyllt eggaldin, kjúklingur og pestósósa

Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og leika sér með alls konar hráefni og ólík brögð. Útkoman getur stundum komið vel á óvart. Hér er ein ótrúlega góð, þar sem eggaldin spilar stórt hlutverk úr smiðju Berglindar okkar Hreiðars sem löngum er orðin þekkt fyrir köku- og matarblogg sitt á síðunni Gotteri og gersemar. „Ég var að prófa að fylla og elda eggaldin í fyrsta skipti og mikið sem þetta var fullkomið meðlæti með kjúklingnum og sósunni, namm hvað þetta var truflað gott,“ segir Berglind sem elskar að prófa nýja hluti þar sem ólík brögð fara saman.

M&H Eggaldin-9-683x1024.jpg

Fyllt eggaldin, kjúklingur og pestósósa

Fyrir 4

Fyllt eggaldin

  • 2 meðalstór eggaldin
  • 1 laukur
  • ½ krukka grillaðar paprikur frá Sacla
  • 2 msk. Sacla pestó með grilluðu eggaldin
  • 3 msk. parmesanostur + meira ofan á
  • Rifinn ostur
  • Oregano, salt, pipar, hvítlauksduft, paprikuduft
  • Olía til steikingar
  1. Hitið ofinn í 170°C.
  2. Skerið hvort eggaldin fyrir sig í tvennt, langsum og takið innan úr öllum helmingunum (skiljið þó eftir um 1 cm kant allan hringinn).
  3. Penslið hvert eggaldin með olíu, saltið og piprið og bakið í 20 mínútur.
  4. Saxið á meðan hlutann af eggaldininu sem þið tókuð úr smátt niður ásamt lauknum og grilluðu paprikunum.
  5. Steikið saxað eggaldin og lauk á pönnu upp úr olíu og kryddið eftir smekk.
  6. Þegar grænmetið er farið að mýkjast má bæta grilluðum paprikum og parmesanosti saman við og geyma.
  7. Takið eggaldinin úr ofninum eftir 20 mínútur, fyllið með grænmetisblöndunni og setjið rifinn ost og smá meiri parmesanost yfir og setjið aftur í ofninn í um 10 mínútur.

Eggaldin-15-1024x683.jpg

Kjúklingabringur

  • 4 kjúklingabringur
  • Gott kjúklingakrydd
  • Ólífuolía
  1. Hitið ofninn í 170°C.
  2. Snöggsteikið bringurnar á pönnu upp úr vel af olíu, kryddið eftir smekk.
  3. Færið yfir í eldfast mót og eldið í ofninum í um 20 mínútur, hvílið svo í um 10 mínútur.
  4. Það passar vel að setja bringurnar inn í ofn á sama tíma og eggaldinið og leyfa þeim síðan að hvíla á meðan eggaldinið fer í ofninn aftur.
Eggaldin-5-683x1024.jpg

Pestósósa

  • 350 ml rjómi
  • 2 msk. Sacla pestó með grilluðu eggaldin
  • ½ pepperoni kryddostur
  1. Rifið ostinn niður og setjið allt saman í pott og hitið þar til osturinn er bráðinn.

Berið fram á aðlaðandi hátt og njótið vel.

M&H Eggaldin-21-683x1024.jpg

Girnilegt fyllt eggaldin toppað með rifnum ferskum parmesanosti./Myndir Berglind Hreiðars.