Töru Margréti blöskrar pistill Láru: „Orð­laus yfir því hvað þetta er hrika­legt“

Pistill Láru G. Sigurðar­dóttur í bak­þönkum Frétta­blaðsins í dag er fjallar um of­fitu hefur vakið mikla at­hygli á net­heimum. Heitar um­ræður hafa skapast á Twitter og ó­hætt er að segja að pistillinn hafi vakið úlf­úð meðal fjölda not­enda.

Ein þeirra sem tjá sig Tara Margrét Vil­hjálms­dóttir, for­maður Sam­taka um líkams­virðingu. Henni þykir nóg boðið. „Þetta er akkúrat hættan á bak við svona þætti og frétta­skýringar um of­fitu. Alveg sama hvað það var oft tekið fram að of­fita sé flókið sam­spil margra þátta t.d. fé­lags­legra að þá er þetta teik flestra; “bOrÐa mInnA NaMmI,”“ segir Tara og bætir við: „Svo ekki sé minnst á hversu hræði­lega problematískt það er að upp­hefja fitu­s­mánun sem árangurs­ríkt að­haldstæk.“

Tara endur­tístir þar tísti Ingu nokkurrar sem spyr ein­fald­lega hver til­gangur pistils Láru sé. „Hvað er pointið með þessum bak­þönkum? Að endur­taka það sem kom fram í Kveik? Vill hún fá klapp á bakið fyrir að henda nammi­pokanum en ekki kærastanum?“ segir Inga.

Fleiri Twitter-not­endur taka undir orð hennar. Þar segir Krist­lín nokkur: „Aldrei lesið verri bak­þanka, og þar eru með­taldir bak­þankar sem einn pistla­höfundur skrifaði fullur um hvað sveitungur hans væri mikið ó­menni.“

Twitter-notandi sem kennir sig við Hexíu de Trix, galdra­nornina brögð­óttu úr Andrésar­blöðunum, leggur orð í belg: „Ég er orð­laus yfir því hvað þetta er hrika­legt take. Og að giftast gæjanum sem hún byrjaði með 17 ára (eða yngri), fara í megrun því hann sagði að hún væri búin að fitna... Ég hef á­hyggjur.“

Inga, sú sem setti upp­haf­legu færsluna inn, svarar galdra­öndinni og segir: „jebb, vonandi hefur hann þroskast síðan en ég hef litla trú á því (lesist karl­mönnum).“ Þá segir Birta nokkur Sæ­munds­dóttir: „Aww. Kærasti sem finnst hann þurfa að kommenta á holda­far 17 ára kærustunnar er svo mikill keeper.“

Þetta er ekki fyrsti pistill Láru sem vekur at­hygli net­verja. Minnast nokkrir þeirra á það. „Er þetta ekki sama kona og var með galið, heart­felt take um að um­ræða um lækna­dóp í um­ferð væri svo hræði­leg. Það væri svo ó­sann­gjarnt gagn­vart lækna­stéttinni að kenna dóp við lækna?“ segir Hlynur nokkur Hall­gríms­son.

Þá segir Heiða ein kaldhæðnislega að þetta sé ekki fyrsta „hot take-ið“ hennar og vísar í pistla hennar um skað­leg á­hrif á­fengis og annan pistil um of­fitu. Það er því ljóst að þetta mál­efni er Láru hjartans mál.