Tónlistarmaðurinn Borko hjólar í borgarstjóra: „Það er ljóst, kæri Dagur, að þú gekkst á bak orða þinna“

Björn Kristjánsson, betur þekktur undir listamannsnafninu Borko, hefur skrifað Degi B. Eggertssyni borgarstjóra opið bréf, sem birtist á Vísi í dag, en þar sakar hann Dag um að ganga á bak orða sinna.

Björn er íbúi í Laugardal, og hann er ekki sáttur með áætlanir er varða íþróttaaðstöðu barna og ungmenna í hverfinu, og finnst áherslan vera á þjóðarhöll. Í pistlinum segir hann frá íbúafundi þar sem Dagur spenntur fyrir þjóðarhöll og síðan svari frá honum þar sem hann hefur eftir Degi að leggja ætti tillögu fyrir borgarráð þann 5. maí um byggingu íþróttahúss fyrir Þrótt og Ármann, ef ekki væri stefnt á þjóðarhöll í fjármálaáætlun ríkisins.

„Fjármálaáætlunin birtist reyndar nokkru fyrr en ráðgert var og þar var ekki gert ráð fyrir einni krónu í þjóðarhöll. Börn, unglingar, foreldrar og aðrir íbúar í Laugardal glöddust yfir þessu. Enda búið að vera baráttumál áratugum saman að koma aðstöðu til kennslu og æfinga innanhússíþrótta í sómasamlegt horf hér í hverfinu. Nú fengjum við loksins íþróttahúsið okkar!“ segir Björn, sem varð þó fyrir vonbrigðum þann 5. Maí.

„Svo kom 5. maí og borgarráðsfundurinn mikilvægi fór fram. Engin svör var að finna í fundargerð fundarins heldur var afgreiðsla málsins færð í trúnaðarbók. Þetta var eitthvað dularfullt. Daginn eftir kom svo skellurinn. Viljayfirlýsing um þjóðarhöll. Viljayfirlýsing. Innihaldsrýrara plagg er vandfundið. Fjármögnun er ekki tryggð, rekstrarformið er óljóst og tímaramminn fylltur útópískri bjartsýni. Enn skyldi málum barna og unglinga í Laugardalnum drepið á dreif, þau þæfð í nefndum og starfshópum og frestað um óákveðinn tíma.“

Björn segir að það hafi ekki verið það sem Dagur sagði á íbúafundinum.

„Það er ljóst, kæri Dagur, að þú gekkst á bak orða þinna. Þú stóðst ekki við það sem þú hafðir lofað. Þú einfaldlega sagðir ósatt og þegar maður gerir slíkt veldur maður rofi í trausti. Og nú hefur orðið slíkt rof í trausti milli þín, sem æðsta stjórnanda borgarinnar og okkar, íbúa hverfisins, sem margir upplifa vonbrigði og svik vegna þessa máls.“

Þó tekur Björn fram að hann sé tilbúinn að byggja aftur upp traust við Dag og spyr hann því fjögurra spurninga.

  1. Verður Laugardalshöll færð Þrótti og Ármanni til fullra umráða og afnota? Hvenær verður það gert? Hvernig verður staðið að því?
  2. Hvernig verður tryggt að æfingar og íþróttakennsla þurfi ekki að víkja fyrir viðburðahaldi í Laugardalshöll þar til og ef þjóðarhöll rís?
  3. Stendur til að draga Laugardalshöll út úr samningum við Íþrótta- og sýningarhöllina hf. sem sér um rekstur og útleigu á mannvirkinu og tekur viðburðahald fram yfir íþróttastarf? Hvenær verður það gert?
  4. Hvernig verður tryggt að umhverfi og aðstaða í risavaxinni Laugardalshöll og/eða þjóðarhöll verði með þeim hætti að iðkendur njóti sömu persónulegu, félagslegu og uppeldislegu gæða og önnur félög geta veitt í sínum eigin minni húsum?

Að lokum segir Björn að þetta séu einungis örfáar spurningar og að fleirum sé ósvarað, en hann kallað þessar fjórar gott fyrsta skref.

„Skref í átt til trausts og sátta. Íbúar hverfisins eru margbrenndir af innihaldslausum viljayfirlýsingum, loðnum svörum, starfshópum, ráðum og nefndum. Við munum ekki sætta okkar við það lengur að vera víkjandi stærð í langdregnum og furðulegum kapli borgarinnar sem aldrei virðist ganga upp.“