Tommi á Búllunni: Hættum að hugsa stöðugt um gróða - „Ást og kær­leikur er það sem skiptir máli“

„Væri ekki gott ef mann­skepnan hætti að hugsa um fram­farir og gróða og mundi snúa sér að því að elska náungann. Ást og kær­leikur er það sem skiptir máli,“ segir Tómas Tómas­son, oft kallaður Tommi á Búllunni.

Tómas er pistla­höfundur á vef Ei­ríks Jóns­sonar og í nýjasta pistli sínum skrifar hann meðal annars um græðgina.

„Stundum velti ég því fyrir mér til hvers allar þessar nýju tækni­upp­finningar og fram­farir í heiminum eru í raun. Hversu bættari er mann­kynið? Í dag eru alls­kyns hlutir sem við notum dag­lega og finnst við ekki geta verið án og við spyrjum: Hvernig fórum við að áður fyrr?“

Tommi bendir á að við séum nokkuð á­nægð með hlutina eins og þeir eru í dag – fyrir utan CO­VID-19 vitan­lega. „Höfum í raun allt til alls en eftir 5 eða 10 ár þá verða komnir hlutir sem við teljum ó­missandi og munum spyrja enn og aftur: Hvernig fórum við að?“

Tommi segir að við þurfum ekkert meira en við höfum. „Ef við lítum á mann­kyns­söguna og sjáum hvað mann­skepnan hefur á­orkað án allrar þessarar tækni sem við í dag prísum út í eitt þá hafa nú al­deilis verið gerðir ó­trú­legustu hlutir án nú­tíma­tækni og vísinda,“ segir hann og spyr hvort það væri ekki gott ef mann­skepnan hætti að hugsa um gróða.

„Jú, auð­vitað er gott að þróa heil­brigðis­kerfið og efla lækna­vísindin en hvað þurfum við svo sem meir. Við höfum allt til alls,“ segir Tommi og bætir við að dauða­syndirnar sjö séu að drepa okkur: Hroki, öfund, reiði, leti, óhóf, losti og græðgi. Tommi segir að það mætti vel bæta við tveimur syndum á þennan lista: Sjálfs­elsku og ó­heiðar­leika.

„Ef mann­skepnan myndi bara ein­blína á að upp­ræta þessa vá­gesti og ein­blína á dyggðirnar 7 væri hægt að upp­ræta hungur og vos­búð í heiminum,“ segir hann og bætir við að því miður sé þetta ósk­hyggja sem senni­lega mun aldrei verða að veru­leika.

„En ef allir gerðu hreint fyrir sínum dyrum og hugsuðu ekki um hvað aðrir eru að gera þá væri þetta hægt. En því miður þá er þetta ekki svo ein­falt því ef það er til himna­ríki þá er til hel­víti og þegar upp er staðið þá eru dauða­syndirnar 9 ekkert á leiðinni að gefast upp.“