Tommi á Búllunni: „Ég sagði þetta bara til að segja eitthvað“ – Brandari á þriðjudag leiddi til misskilnings

Tómas Tómasson, veitingamaður og nú þingmaður Flokks fólksins, ætlar að stunda þingstörf sín af fullu kappi þrátt fyrir orðróm um annað.

Fréttablaðið greinir frá því að í þingmannaskólanum svokallaða á þriðjudag, þar sem nýir þingmenn setjast á skólabekk í Alþingishúsinu, hafi kvisast út að Tómas ætlaði sér að opna svokallaðan All day Breakfast stað.

Lásu einhverjir í hópi nýrra samþingmanna Tómasar það þannig að hann ætlaði sér ekki að stunda þingstörfin af fullum krafti heldur opna veitingastað samhliða. Eins og allir vita er þingstarfið fullt starf og rúmlega það. Þá var Tómas sagður hafa spurt sérstaklega út í heimildir til fjarvista.

Tómas þvertekur fyrir það að hann ætli sér ekki að sinna þingstarfinu af fullum þunga í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Nei, nei, nei, þetta er algjör misskilningur. Ég var spurður hvað ég ætlaði að gera að fjórum árum liðnum þegar kjörtímabilinu lyki. Þá verð ég 76 ára. Ég sló fram góðlátlegum brandara um að þá myndi ég opna svona All day Breakfast stað,“ segir hann og hlær. „Ég sagði þetta bara til að segja eitthvað.“

Tómas lætur þetta ekkert á sig fá og virðist vel meðvitaður um það að þingstarfinu fylgja stundum sögur sem þessar. „Það er bara gaman að fólk skuli nenna að tala um mig.“