Tómas Guð­bjartsson ó­sáttur: „Hvílík hneisa að selja þessa náttúru­perlu“

Tómas Guð­bjarts­son, lungna­skurð­læknir er afar ó­sáttur með að búið sé að selja Hjör­leifs­höfða til Þjóð­verja sem ætla að hefja þar námu­vinnslu.

„Hvílík hneisa að selja þessa náttúru­perlu sem Hjör­leifs­höfði er - og það fyrir náma­vinnslu á vikri!. Eru menn blindir? Þetta er stór­kost­legur staður með hellum og klettum og langt frá því að vera "svartur sandur". Efst er fal­leg gras­þekja og mikið fugla­líf,“ skrifar Tómas á Face­book síðu sinni.

„Út­sýni til Mýr­dals­jökuls er mergjað, einnig út eftir Kötlu­tanga þar sem náman verður. Þarna kom jú fóst­bróðir Ingólfs Arnars­sonar, Hjör­leifur Hróð­mars­son og var veginn af írskum þrælum sem Ingólfur elti uppi og drap. Höfðinn er því stór­merki­legur fyrir sögu okkar Ís­lendinga. Ekki segja mér að það vanti náma­vinnslu á svæðið - enda Vík í Mýr­dal þegar orðið eitt helsta ferða­manna­svæði landsins með stór­kost­legri strönd og heims­frægum Reynis­dröngum,“ skrifar hann enn fremur.

Hann skilur ekkert í að þetta sé leyft og segir að með þessu sé verið að slátra mjólkur­kúnni sem er ferða­manna­iðnaður á­samt því að þetta sé slæmt fyrir náttúru­vernd.

„Náma­vinnsla í næsta ná­grenni á enga sam­leið með öflugum ferða­manna­iðnaði. Það er eins og að slátra mjólkur­kúnni en er auk þess út frá sjónar­miði náttúru­verndar og sagn­fræði al­gjör tíma­skekkja,“ skrifar Tómas að lokum.

Heimaskítsmát í Mýrdal Hvílík hneisa að selja þessa náttúruperlu sem Hjörleifshöfði er - og það fyrir námavinnslu á...

Posted by Tomas Gudbjartsson on Mánudagur, 30. nóvember 2020