Tómas bjargaði lífi lambs um helgina – Sjáðu magnaðar myndir

25. maí 2020
09:10
Fréttir & pistlar

Tómas Guð­bjarts­son hjarta­skurð­læknir er fjöl­hæfur með ein­dæmum og sýndi það sig um helgina þegar hann bjargaði lífi lamb­hrúts í Arnar­firði.

Tómas segir frá þessu á Face­book-síðu sinni þar sem hann birtir myndir af björgunar­að­gerðunum.

Frændi Tómasar, Víðir Hólm Guð­bjarts­son, er bóndi í Grænu­hlíð í Arnar­firði. Lambið lenti í ó­göngum í sauð­burði á dögunum þegar höfuð þess klemmdist í troðningi í stíunni og neðri vörin rifnaði illa inn að kjálka. Sýking og síðar stórt drep komst í sárið þannig að lambið vildi ekki nærast.

„Var frændi farinn að spá í að af­lífa þann litla - en fannst hann samt ekki alveg til­búinn að mæta skaparanum. Enda með fal­legri lömbum og augna­svipurinn ein­stakur.“

Tómas segir að eftir sam­ráð við dýra­lækni hafi þeir fundið verkja- og slævi­lyf sem þeir gáfu í vöðva á­samt penisillíni.

„Síðan var drepið skorið af og notaðist ég við græjur úr fjalla­skíða-sjúkra­kassanum, m.a. grisjur til að stöðva blæðingu. Víðir frændi lék monitor og hlustaði eftir hjart­slætti og öndun á ný­stár­lega hátt. Hrúturinn ungi, sem eftir að­gerðina fékk nafnið Tommi, varð eld­hress á 10 mínútum og fór strax að drekka hjá mömmu sinni - sem virtist sátt við að­gerðina. Tala um fast-track sur­gery - og gera gagn í helgar­fríi.“

Fleiri myndir má sjá í færslu Tómasar hér að neðan.

Tommi opererar hrútinn Tomma Í sauðburði hjá Víði frænda í Grænuhlíð í Arnarfirði var ég kynntur fyrir nokkurra daga...

Posted by Tomas Gudbjartsson on Sunnudagur, 24. maí 2020