Tom Hanks furðar sig á CO­VID-19: Eigin­kona hans veiktist á allt annan hátt

Banda­ríski Óskars­verð­launa­leikarinn Tom Hanks er búinn að ná sér að fullu eftir að hafa greinst með CO­VID-19 í mars síðast­liðnum.

Tom og eigin­kona hans, leik­konan Rita Wil­son, veiktust bæði en þau eru orðin frísk og glíma ekki við nein eftir­köst smitsins eins og mörg dæmi hafa verið um. Tom og Rita voru meðal þeirra fyrstu til að veikjast af veirunni, en það gerðist þegar þau voru við vinnu í Ástralíu.

Hjónin greindust já­kvæð þann 10. mars síðast­liðinn og dvöldu þau á sjúkra­húsi í þrjá sólar­hringa til öryggis.

Í við­tali við Guar­dian furðar Hanks sig á því hversu ólík á­hrif veiran hafði á þau hjónin. Hanks segir að Rita hafi misst allt lyktar- og bragð­skyn, hafi upp­lifað ó­gleði og fengið mjög háan hita. Veiran hafði hins vegar allt önnur á­hrif á Hanks.

„Ég var bara að drepast í líkamanum, var mjög þreyttur og átti erfitt með að ein­beita mér,“ segir Hanks sem segir að þetta hafi verið dá­lítið skrýtið.

Veiran leggst mis­jafn­lega þungt á fólk og eru dæmi um ein­stak­linga sem hafa varla fengið nein ein­kenni á meðan aðrir, jafn­vel heilsu­hraustir ein­staklingar, hafa þurft að fara í öndunar­vél. Þá eru mý­mörg dæmi um al­mennt heilsu­hrausta ein­stak­linga sem hafa tapað bar­áttu sinni við veiruna eða fylgi­fiska hennar.

Sjálfur segist Hanks vissu­lega hafa haft á­hyggjur þegar hann greindist já­kvæður.